Fótbolti

Spilaði í þriðju deild fyrir tveimur árum en er núna þriðja besta fótboltakona heims

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Salma Paralluelo smellir kossi á heimsmeistarabikarinn.
Salma Paralluelo smellir kossi á heimsmeistarabikarinn. getty/Marc Atkins

Uppgangur spænsku fótboltakonunnar Sölmu Paralluelo undanfarin ár hefur verið með ólíkindum.

Paralluelo var í 3. sæti í kjörinu á Gullboltanum sem er veittur besta leikmanni heims. Samherji Paralluelos í Barcelona og spænska landsliðinu, Aitana Bonmatí, fékk Gullboltann sem var veittur við hátíðlega athöfn í gær.

Fyrir tveimur árum spilaði Paralluelo með Villarreal í spænsku C-deildinni. Þá var eflaust erfitt að sjá fyrir að hún yrði ein af bestu fótboltakonum heims í dag.

Reyndar var ekki ljóst hvort Paralluelo yrði fótboltakona eða myndi leggja frjálsar íþróttir fyrir sig. Hún var nefnilega stórefnilegur spretthlaupari og keppti meðal annars á EM innanhúss 2019, næstyngst allra í sögu mótsins.

En fótboltinn varð fyrir valinu hjá Paralluelo sem gekk í raðir Barcelona í fyrra og varð spænskur meistari og Evrópumeistari með liðinu á síðasta tímabili.

Ekki nóg með það heldur átti hún stóran þátt í því að Spánverjar urðu heimsmeistarar í fyrsta sinn í sumar. Paralluelo skoraði meðal annars markið sem tryggði Spáni sæti í úrslitaleik HM. Hún var svo valin besti ungi leikmaður HM.

Paralluelo er aðeins nítján ára og framtíðin virðist óhemju björt hjá þessari frábæru fótboltakonu. Hún hefur skorað átta mörk í fjórtán landsleikjum en mörkin og leikirnir fyrir landsliðið eiga væntanlega eftir að verða miklu fleiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×