Innlent

Selja fast­eignina sem hýsir hjúkrunar­heimili

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Seltjarnarnesbær hefur ákveðið að fara af stað með söluferli á fasteigninni Safnatröð 1 á Seltjarnarnesi.
Seltjarnarnesbær hefur ákveðið að fara af stað með söluferli á fasteigninni Safnatröð 1 á Seltjarnarnesi. Aðsend

Seltjarnarnesbær hefur tekið ákvörðun um að fara af stað með söluferli á fasteigninni Safnatröð 1 á Seltjarnarnesi. Í fasteigninni er rekið hjúkrunarheimili og einnig er þar þjónustuhluti fyrir aldraða á Seltjarnarnesi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Seltjarnarnesbæ.

Byggingu eignarinnar lauk árið 2019 og mars það ár hóf hjúkrunarheimilið Seltjörn starfsemi þar. Stór hluti fasteignarinnar er í langtímaleigu til ríkisins og fram kemur í tilkynningunni að markmiðið sé að „selja hana til aðila sem sérhæfir sig í fasteignarekstri ef ásættanlegt tilboð berst.“

„Áréttað er að aðeins er um söluferli á fasteign að ræða en ekki er um að ræða breytingu á þeirri starfsemi sem rekin er í fasteigninni. Vigdísarholt ehf. sem rekið hefur hjúkrunarheimilið og dagdvölina verður áfram með reksturinn,“ segir í tilkynningunni.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar segir í samtali við fréttastofu að markmiðið með sölunni sé „að losa um fjármagn sem bundið er í fasteigninni Safnatröð 1 til að fjármagna aðrar framkvæmdir bæjarins.“ 

Á meðal slíkra framkvæmda er bygging nýs leikskóla á Suðurströnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×