Enski boltinn

„Liverpool er í rangri keppni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Darwin Nunez fagnar marki sínu fyrir Liverpool á móti Toulouse í gær.
 Darwin Nunez fagnar marki sínu fyrir Liverpool á móti Toulouse í gær. Getty/James Gill

Liverpool skoraði fimm mörk á Anfield í gærkvöldi í 5-1 sigri á franska félaginu Toulouse í Evrópudeildinni.

Frönsku bikarmeistararnir áttu fá svör við Liverpool liðinu sem hefur nú unnið tíu af tólf leikjum sínum í öllum keppnum á leiktíðinni. Í Evrópudeildinni er enska liðið með níu stig af níu mögulegum og markatöluna 10-2.

Joe Cole, knattspyrnusérfræðingur á BBC og fyrrum leikmaður Liverpool, setur pressu á liðið að vinna Evrópudeildina í ár.

„Liverpool er í rangri keppni. Ef þeir væru í Meistaradeildinni þá værum við að tala um að þeir gætu farið alla leið,“ sagði Cole við TNT.

„Þeir verða bara að vinna þessa keppni og allt annað er ekki nógu gott,“ sagði Cole.

„Þetta er líka áhyggjuefni fyrir aðra í Evrópudeildinni sem og í ensku úrvalsdeildinni. Þeir eru á fullri ferð. Um leið og Liverpool kemst á skrið þá er mjög erfitt að stoppa þá,“ sagði Cole.

„Það er ekki hægt að sjá annað fyrir sér en að liðið fari mjög langt í þessari keppni. Góðu tímarnir eru komnir á ný. Hvernig enduðu þeir eiginlega í þessari keppni,“ spurði Cole.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×