Erlent

Ísraels­menn kalla eftir af­sögn Guter­res í kjöl­far á­kalls um vopna­hlé

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir Palestínumanna eru látnir eftir hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna síðustu daga og vikur. Ísraelsmenn telja sig hins vegar í fullum rétti að hefna fyrir hroðaverk Hamas-liða.
Þúsundir Palestínumanna eru látnir eftir hernaðaraðgerðir Ísraelsmanna síðustu daga og vikur. Ísraelsmenn telja sig hins vegar í fullum rétti að hefna fyrir hroðaverk Hamas-liða. AP/Abed Khaled

Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) segir aðgerðir sínar á Gasa verða lamaðar frá miðvikudagskvöldi vegna eldsneytisskorts. 

Philippe Lazzarini, framkvæmdastjóri UNRWA, varaði við því á sunnudag að eldsneyti yrði brátt á þrotum og án þess yrði ekkert vatn, engin heilbrigðisþjónusta og engin matvælaframleiðsla á borð við brauðbakstur.

Ísraelsher hefur brugðist við yfirlýsingunum með því að birta myndir af því sem þeir segja eldsneytistanka með meira en 500.000 lítra af olíu, á Gasa. „Spyrjið Hamas hvort þið megið ekki fá eitthvað af henni,“ sagði með myndinni.

António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallaði í gær eftir tafarlausu vopnahléi til að binda enda á stórkostlegar þjáningar íbúar Gasa. Guterres sagði umsátur Ísraelsmanna um svæðið og stöðugar loftárásir jafngilda hóprefsingu gegn Palestínumönnum og brot gegn alþjóðalögum.

Guterres sagði að árásir Hamas á almenna borgara í Ísrael þann 7. október síðastliðinn hafa verið hörmulegar en þær hefðu ekki átt sér stað í tómarúmi. Palestínumenn hefðu mátt sæta 56 ára „kæfandi hersetu“.

Gilad Erdan, sendiherra Ísrael við Sameinuðu þjóðarinnar, kallaði tafarlaust eftir afsögn Guterres og sagði hann veruleikafirrtan. Ummæli hans væru ekkert annað en réttlæting á morðum og hryðjuverkum. 

„Það er dapurlegt að einstaklingur með þessa afstöðu sé leiðtogi samtaka sem voru stofnuð í kjölfar helfararinnar,“ sagði Erdan.

Eli Cohen, utanríkisráðherra Ísrael, afboðaði fyrirhugaðan fund með Guterres í kjölfar ummæla síðarnefnda.

Mai al-Kaila, heilbrigðisráðherra Palestínu, segir þrjú sjúkrahús á Gasa nú óstarfhæf vegna eldsneytisskorts. Hún hefur kallað eftir því að heimilað verði að flytja særða og alvarlega veika á sjúkrahús í Egyptalandi.

Daniel Hagari, talsmaður Ísraelshers, sagði í gær að eldsneytisflutningar yrðu ekki leyfðir yfir landamærin að Egyptalandi þar sem því yrði stolið af Hamas. Hamas-samtökin hefðu rænt eldsneyti frá UNRWA sem þau gætu látið sjúkrahúsin fá.

Yfirvöld á Gasa, sem stjórnað er af Hamas, sögðu yfir 700 manns hafa látist í loftárásum Ísraelsmanna í gær. Luke Baker, fyrrverandi fréttaritari Reuters í Jerúsalem, hefur þó varað við því að menn taki tölur frá Hamas trúanlegar og hefur bent á að engin leið sé til að staðfesta þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×