Innlent

„Það sem er í gangi núna er bara þjóðar­morð“

Bjarki Sigurðsson skrifar
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir er þingmaður Pírata.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir er þingmaður Pírata. Vísir/Steingrímur Dúi

Félagið Ísland-Palestína hefur boðað til samstöðugöngu í dag til stuðnings Palestínu. Þingmaður sem flytur ræðu á samstöðufundi að göngu lokinni segir kröfuna vera að stjórnvöld beiti sér fyrir því að binda enda á átökin fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Gangan hefst við Utanríkisráðuneytið við Rauðárstíg klukkan tuttugu mínútur yfir tvö og gengið verður niður Laugaveg að Austurvelli. Klukkan korter yfir þrjú hefst svo samstöðufundur þar. Þar munu Drífa Snædal, talskona Stígamóta, og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, flytja ræður.

Arndís segir kröfu mótmælenda vera sú að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að stöðva þau brot á alþjóðalögum sem framin eru í átökum Ísrael og Hamas-samtakanna

„Í rauninni er krafan sú að íslensk stjórnvöld beiti sér af öllu því afli sem þeim er fært á alþjóðavettvangi. Það þarf að fordæma þetta opinberlega, það þarf að ræða þetta og það þarf að bregðast við . íslenska ríkisstjórnin er ekki að gera það. Við getum kannski ekki gert margt en við eigum að gera það sem við getum til þess að stöðva það sem er þarna í gangim,“ segir Arndís. 

Ísrael hafi brotið alþjóðalög gagnvart Palestínumönnum svo áratugum skiptir.

„Það er það sem er í gangi núna er bara þjóðarmorð. Það er í yfirlýsingum ísraelskra stjórnvalda, þá kemur fram að þetta er hefnd. Þetta snýst ekki um það að ríkið sé að nýta sér þann rétt til að verja sig, sem ríki hafa samkvæmt alþjóðlaögum. En það er ekki löglegt samkvæmt alþjóðalögum að hefna sín, og það allra síst á almennum borgurum,“ segir Arndís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×