Erlent

„Aldrei verið jafn þungt yfir Ísrael“

Samúel Karl Ólason skrifar
Rishi Sunak og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherrar Bretlands og Ísraels.
Rishi Sunak og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherrar Bretlands og Ísraels. EPA/Simon Walker

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir Hamas, Hezbollah og bakhjarla þeirra í Íran vilja færa Mið-Austurlönd aftur til tíma stríða, þrælkunar og útrýmingar. Hann segir heiminn allan þurfa að standa með Ísrael í baráttunni við þennan „ás hins illa“.

Þetta sagði forsætisráðherrann í ávarpi á blaðamannafundi í morgun með Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands.

Netanjahú hélt því fram að árás Hamas-liða á Ísrael þann 7. október hefði verið gerð til að stöðva friðarviðleitni Ísraela og annarra ríkja í Mið-Austurlöndum. Hann sagði að stríð Ísraela yrði langt og bað Sunak um stuðning Bretlands.

Hann sagði að heimurinn yrði að berjast saman gegn Hamas, eins og heimurinn hefði gert gegn nasistum á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

„Það hefur aldrei verið jafn þungt yfir Ísrael. Það hefur aldrei verið jafn þungt yfir heiminum. Við verðum að standa saman og við viljum vinna.“

Sunak hét Ísraelum stuðningi og sagði Breta vonast eftir sigri Ísraels. Þá ítrekaði Sunak að óbreyttir borgarar á Gasaströndinni væru einnig fórnarlömb Hamas og hrósaði Netanjahú fyrir að leyfa takmarkaða birgðaflutninga inn á svæðið.

Breski forsætisráðherrann sagði að ríkisstjórn sín myndi auka bæta á aðstoð til svæðisins, eins fljótt og auðið væri.

Netanjahú tilkynnti í gær að hann hefði samþykkt að hleypa neyðaraðstoð til handa íbúum Gasa yfir landamærin frá Egyptalandi. Var það gert að beiðni Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, en Ísraelar hafa hótað loftárásum á Rafa-landamærastöðina við landamæri Egyptalands, sem er eina landamærastöð Gasastrandarinnar sem Ísraelar stjórna ekki.

Yfirvöld í Egyptalandi tilkynntu svo í morgun að tuttugu flutningabifreiðum yrði hleypt yfir landamærin. Farmur þeirra verður skoðaður fyrst og einnig verður fylgst með því hvort Hamas-samtökin steli birgðunum eða beina þeim annað.

Fari svo, verða birgðaflutningarnir stöðvaðir aftur. Sameinuðu þjóðirnar eiga að sjá um þetta eftirlit.


Tengdar fréttir

Hver átti sprengjuna?

Mikil óvissa ríkir um það hver beri ábyrgð á sprengingunni sem varð við al Ahli Arab sjúkrahúsið á Gasa í gærkvöldi. Strax eftir sprenginguna lýsti heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem stýrt er af Hamas, því yfir að hundruð hefðu fallið og særst og beindu forsvarsmenn Hamas-samtakanna spjótum sínum strax að ísraelska hernum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×