Fótbolti

Van Dijk hjálpaði ís­lenska lands­liðinu í gær­kvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk fagnar sigurmarki sínu í Aþenu í gærkvöldi.
Virgil van Dijk fagnar sigurmarki sínu í Aþenu í gærkvöldi. AP/Thanassis Stavrakis

Íslenska landsliðið á enn möguleika á því að komast í úrslitakeppni EM næsta sumar en möguleiki strákanna okkar liggur nú í að fara í gegnum umspil Þjóðadeildarinnar.

Þar geta Hollendingar hjálpað íslenska landsliðinu að komast inn með því að tryggja sér beint sæti á Evrópumótið úr sínum undanriðli.

Åge Hareide, þjálfari íslenska landsliðsins, talaði einmitt um það eftir sigurinn á Liechtenstein í gærkvöldi, að vonin væri að Hollendingar héldu öðru sætinu í B-riðlinum.

Virgil van Dijk, miðvörður Liverpool og hollenska landsliðsins, skoraði sigurmark á móti Grikkjum í gærkvöldi sem hjálpaði ekki aðeins Hollandi heldur einnig íslenska landsliðinu.

Með jafntefli þá hefðu Grikkir setið áfram í öðru sætinu en mark Liverpool mannsins kom úr víti í uppbótartíma.

Hollendingar komust upp í annað sætið með þessum sigri en þeir eru ofar en Grikkir á betri árangri í innbyrðis viðureignum.

Kæmust Hollendingar ekki beint á EM þá tækju þær til sín umspilssæti sem gæti annars fallið til okkar Íslendinga. Það er aftur á móti ekki þannig hjá Grikklandi.

Um leið og Holland vann leikinn í gær og komust upp fyrir Grikki þá datt íslenska landsliðið inn í umspilssæti.

Íslenska landsliðið er í sjöunda efsta sætinu í röðun B-deildar Þjóðadeildarinnar.

Skotar eru fyrir ofan Ísland en þeir eru komnir inn á EM. Serbar eru líka í baráttunni um að komast beint inn á mótið og eru eins og er í öruggu sæti.

Það þýðir að fimm sæti úr B-deildinni eru eins og staðan í dag að skila sæti í umspilinu þar sem aðeins tvær af þjóðunum í A-deildinni eru ekki í öruggu sæti. Ísland er eitt af þessum fimm þjóðum.

Það á auðvitað mikið eftir að gerast ennþá en það lítur út fyrir það að augu Íslendinga gætu verið á úrslitum í öðrum leikjum í öðrum riðlum í lokaumferðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×