Fótbolti

Endur­koma Gylfa Þórs gefi lands­liðinu gríðar­lega mikið

Aron Guðmundsson skrifar
Sverrir Ingi Ingason, varnarmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta
Sverrir Ingi Ingason, varnarmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta Vísir/getty

Sverrir Ingi Ingason, varnarmaður íslenska landsliðsins er kominn á fullt aftur í boltanum eftir að meiðsli héldu honum frá síðasta verkefni landsliðsins. Hann er spenntur fyrir komandi heimaleikjum liðsins í undankeppni EM og segir endurkomu Gylfa Þórs Sigurðssonar í landsliðið vera frábærar fréttir.

Íslenska landsliðið á tvo heimaleiki fyrir höndum í undankeppni EM. Liðið mætir Lúxemborg á föstudaginn kemur og tekur svo á móti Liechtenstein á mánudaginn eftir tæpa viku.

„Þetta hefur verið fínt,“ segir Sverrir um fyrstu mánuði sína í Danmörku hjá Midtjylland. „Þó svo að gengið sem og heilsan hafi verið upp og ofan. Ég hef átt við smá meiðsli að stríða en er kominn á fullt aftur. Tilbúinn í að hjálpa landsliðinu í komandi leikjum. Vonandi get ég haldið mér heilum áfram og hjálpað Midtjylland í framhaldinu.“

En hver er þá staðan á þér núna?

„Staðan er nokkuð góð. Ég hef tekið þátt í síðustu tveimur leikjum Midtjylland í deildinni úti og er á fínu róli.“

Stóru fréttirnar í kringum þennan landsleikjaglugga eru þær að Gylfi Þór Sigurðsson snýr aftur í íslenska landsliðið eftir tæplega þriggja ára fjarveru.

„Þetta gefur okkur bara gríðarlega mikið,“ segir Sverrir aðspurður hvaða áhrfi endurkoma Gylfa hafi á liðið.

„Frábærar fréttir að hann sé kominn aftur. Hann er kominn vel af stað í Danmörku, lítur bara vel út og er að spila. Við erum mjög ánægðir með að vera búnir að fá hann aftur til baka.“

Viðtalið við Sverri Inga í heild sinni má sjá hér fyrir neðan:

Klippa: Frábærar fréttir að Gylfi Þór sé mættur aftur í landsliðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×