Fótbolti

Stalst á klósettið í miðjum leik og fékk ekki að koma aftur inn á völlinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal í leiknum með Barcelona á móti Porto áður en náttúran kallaði.
Lamine Yamal í leiknum með Barcelona á móti Porto áður en náttúran kallaði. Getty/ Jose Manuel Alvarez

Ungstirnið hjá Barcelona átti eftirminnilegt kvöld í Meistaradeildinni í vikunni og það var ekki bara fyrir frammistöðuna inn á vellinum.

Barcelona vann 1-0 sigur á Porto í Meistaradeildinni og Lamine Yamal var í byrjunarliðinu. Hann er sá yngsti í sögunni til að byrja leik í Mestaradeildinni aðeins sextán ára og 83 daga gamall.

Yamal þurfti hins vegar skyndilega að yfirgefa völlinn í seinni hálfleik og komast á klósettið. Hann var hvergi sjáanlegur frá 73. til 82. mínútu leiksins.

Xavi þjálfari Barcelona sagði eftir leik að leikmaðurinn hafi verið veikur.

Eftir dágóðan tíma á klósettinu þá birtist Yamal aftur en dómari leiksins vildi ekki hleypa honum aftur inn á völlinn.

Barcelona, sem hafði spilað tíu á móti ellefu í níu mínútur, þurfti því að senda varamann inn á völlinn í staðinn fyrir Yamal.

Xavi vildi svo mikið geta notað Lamine Yamal áfram að hann var tilbúinn að bíða með að skipta honum af velli á meðan hann fór á klósettið.

Klósettferðin tók hins vegar miklu lengri tíma en búist var við og svo kom líka stífni dómarans í veg fyrir að Yamal fengi að koma inn á aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×