Fótbolti

Segir son sinn frekar vilja leiða Mbappé út á völl en sig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kieran Trippier og Kylian Mbappé mætast þegar Newcastle og PSG eigast við í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Kieran Trippier og Kylian Mbappé mætast þegar Newcastle og PSG eigast við í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Jean Catuffe/Getty Images

Kieran Trippier, leikmaður Newcastle, mun freista þess að halda Kylian Mbappé í skefjum er Newcastle tekur á móti Paris Sain-Germain í Meistaradeild Evrópu í kvöld, jafnvel þó það gæti kostað það að sonur hans fari í fýlu.

Franska stórveldið PSG sækir Newcastle heim í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld, en samkvæmt Trippier hefur sonur hans, Jacob, meiri áhuga á því að fá að fylgjast með stórstjörnunni Mbappé en pabba sínum.

„Hann er með Mbappé á heilanum og gerir fátt annað en að horfa á myndbönd af honum á Youyube,“ sagði enski landsliðsmaðurinn og grínaðist svo með að sonur hans hefði meiri áhuga á því að leiða frönsku stórstjörnuna út á völl en pabba sinn.

„Það fór ekki mjög vel í mig,“ bætti Trippier við. „Ég sagði honum að ef hann fengi að ganga út með Mbappé þá ætti hann ekki einu sinni að líta á mig í göngunum á leiðinni út á völl.“

Newcastle og PSG eigast við í Meistaradeild Evrópu klukkan 19:00 í kvöld og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×