Golf

McIlroy segist ekki hafa hitt kylfusveininn eftir derhúfumálið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joe LaCava veifaði derhúfu sinni eftir að Patrick Cantley setti niður pútt. Það fór í taugarnar á Rory McIlroy.
Joe LaCava veifaði derhúfu sinni eftir að Patrick Cantley setti niður pútt. Það fór í taugarnar á Rory McIlroy.

Rory McIlroy þvertekur fyrir að hafa hitt kylfusvein Patricks Cantley eftir að þeim lenti saman á öðrum keppnisdegi Ryder-bikarsins.

McIlroy var ósáttur með þegar Joe LaCava, 68 ára kylfusveinn Cantleys, fagnaði pútti Bandaríkjamannsins vel og innilega. Hann veifaði meðal annars derhúfu sinni sem virtist fara sérstaklega í taugarnar á McIlroy. 

Eftir keppnisdaginn sáust McIlroy og LaCava munnhöggvast úti á bílaplani. Öryggisvörður gekk á milli áður en liðsfélagi McIlroys, Shane Lowry leiddi hann inn í bíl.

Í gær bárust fréttir af því LaCava hefði sett sig í samband við McIlroy til að hreinsa loftið. Aðspurður kannaðist norður-írski kylfingurinn ekkert við það. „Ég hef ekki hitt Joe,“ sagði McIlroy.

Þrátt fyrir uppákomuna á laugardaginn var McIlroy í góðum gír í gær þar sem hann sigraði Sam Burns, 3&1, í einliðaleiknum.

„Ég lét þetta efla mig og ekki eyðileggja frábæra viku. Ég nýtti mér þetta mér í hag,“ sagði McIlroy um atvikið.

McIlroy og félagar hans í evrópska liðinu unnu Ryder-bikarinn örugglega, 16 1/2-11 1/2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×