Erlent

Umfangsmiklar árásir á báða bóga

Samúel Karl Ólason skrifar
Barist við eld eftir eldflaugaáras Rússa í bænum Cherkasy.
Barist við eld eftir eldflaugaáras Rússa í bænum Cherkasy. AP/Almannavarnir Úkraínu

Úkraínumenn gerðu í gærkvöldi umfangsmikla árás á flugstöð Rússa á Krímskaga. Á sama tíma skutu Rússar fjölmörgum eld- og stýriflaugum sem ætlað var að valda skemmdum á orkuinnviðum Úkraínu.

Í gærkvöldi birtu íbúar víða á Krímskaga myndbönd af drónum og sprengingum sem sáust og heyrðust víðsvegar á svæðinu. Úkraínumenn tilkynntu svo í morgun að árás hefði beinst að Saki-flugstöðinni, þar sem Rússar geyma herþotur og þjálfa drónaflugmenn.

Fregnir hafa borist af því að árásin hafi verið stærsta drónaárás Úkraínumanna á Krímskaga hingað til. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort árásin hafi valdið miklum skaða.

Fyrr í gær höfðu Úkraínumenn skotið minnst einni Storm Shadow stýriflaug að stjórnstöð Svartahafsflota Rússa á Krímskaga. Varnarmálaráðuneyti Rússlands hélt því fram í gær að fjórar Storm Shadow stýriflaugar hefðu verið skotnar niður og að stýriflaugarnar hefðu ekki hæft skotmark þeirra.

Myndbönd frá því í gær og gervihnattamyndir sem birtar voru í dag, sýna þó að húsið varð fyrir miklum skemmdum og hluti þessi hrundi.

Árásum Úkraínumanna á Krímskaga hefur farið fjölgandi að undanförnu. Nýlega tókst þeim til að mynda að granda rússnesku herskipi og kafbáti í slipp í Sevastopol á Krímskaga. Fyrr í mánuðinum gerðu Úkraínumenn svo vel heppnaða árás á loftvarnarkerfi á Krímskaga en þá tókst þeim að lenda hópi sérsveitarmanna á ströndinni nærri loftvarnarnkerfinu.

Gerðu árásir á orkuinnviði

Skömmu eftir að Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í gær skutu Rússar fjölmörgum eld- og stýriflaugum að Úkraínu. Þessum flaugum virðist hafa verið miðað á minnst fimm borgir í landinu.

Sjá einnig: Vill taka neit­un­ar­vald­ið af Rúss­um

Forsvarsmenn Ukrenergo sögðu í dag að árásir Rússa hafðu skemmt orkuinnviði í mið- og vesturhluta Úkraínu. Rafmagnslaust hefði orðið í fimm héruðum landsins.

Síðasta vetur gerðu Rússar ítrekaðar árásir á innviði Úkraínu með því yfirlýsta markmiði að draga úr baráttuanda úkraínskur þjóðarinnar, þvinga fólk á flótta og fá Úkraínu til að gefast upp. Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í nýlegu viðtali að Úkraínumenn gætu svarað fyrir sig að þessu sinni.

Úkraínumenn hafa á undanförnum mánuðum gert ítrekaðar drónaárásir í Rússlandi og eru þeir að framleiða eigin dróna sem notaðir eru til þessara árása.

„Himininn yfir ykkur er ekki eins vel varinn og þið haldið,“ sagði Selenskí í viðtali við 60 Minutes, eins og farið var yfir í grein á Vísi í gær.




Tengdar fréttir

„Illsku er ekki treystandi“

Illsku er ekki treystandi. Þetta voru skilaboð Volodómírs Selenskís Úkraínuforseta þegar hann hélt ávarp sitt á Allsherjarþingi Semeinuðu þjóðanna í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×