Fótbolti

Portúgalir og Skotar í góðri stöðu eftir leiki kvöldsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Bruno Fernandes fagnar sigurmarki sínum í Slóvakíu í kvöld.
Bruno Fernandes fagnar sigurmarki sínum í Slóvakíu í kvöld. Vísir/Getty

Sex leikir fóru fram í kvöld í undankeppni EM í Þýskalandi á næsta ári. Skotar unnu öruggan sigur á Kýpur og þá vann Portúgal útisigur gegn Slóvakíu í riðli Íslands.

Auk martraðarleiks Íslands og Lúxemborg í kvöld voru spilaðir fimm aðrir leikir í undankeppni Evrópumótsins. Mótið fer fram í Þýskalandi á næsta ári og er mikil eftirvænting enda Þjóðverjar öllu vanir þegar kemur að stórmótaskipulagi.

Skotar eru komnir langleiðina til Þýskalands eftir öruggan 3-0 sigur á Kýpur í kvöld. Scott McTominay, Ryan Porteous og John McGinn skoruðu mörk Skota sem eru með fullt hús stiga í A-riðli eftir fimm leiki. Spánn er í öðru sæti með sex stig en á tvo leiki til góða.

Króatía vann 5-0 stórsigur á Lettum á heimavelli sínum í Zagreb. Bruno Petkovic skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og Luka Ivanusec eitt en Andrej Kramaric og Marko Pasalic bættu tveimur mörkum við í síðari hálfleiknum.

Armenar voru grátlega nálægt því að næla sér í þrjú stig af erfiðum útivelli í Tyrklandi. Artak Dashyan kom gestunum yfir í fyrri hálfleik en Bertug Yildrim jafnaði á 88. mínútu. Tyrkir eru í efsta sæti D-riðils með tíu stig eftir fimm leiki, en Króatar í öðru sæti með sjö stig eftir þrjá leiki.

Í riðli Íslendinga vann Portúgal góðan 1-0 sigur í Slóvakíu. Bruno Fernandes skoraði eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks en Portúgal er með fullt hús stiga í riðlinum þegar öll lið hafa leikið fimm leiki og leiðin til Þýskalands greið.

Bosnía og Hersegóvína, sem mætir á Laugardalsvöll á mánudagskvöldið, vann 2-1 sigur gegn Lichtenstein á heimavelli sínum. Mark frá Edin Dzeko og sjálfsmark Simon Luchinger komu Bosníu og Hersegóvínu í 2-0 áður en Sandro Wolfinger minnkaði muninn. Lokatölur 2-1 en en þetta var aðeins annar sigur heimamanna í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×