Innlent

Þrír fluttir með þyrlunni til Reykja­víkur og fjórir með sjúkra­flugi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þyrla Gæslunnar lenti við Landspítalann klukkan átta í morgun.
Þyrla Gæslunnar lenti við Landspítalann klukkan átta í morgun. Vísir

Þrír voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur eftir alvarlegt slys skammt frá Blönduósi. Nokkrir aðrir voru fluttir með sjúkrabifreiðum til Akureyrar en þar voru fjórir settir í sjúkraflug til Reykjavíkur og nokkrir lagðir inn á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna í samtali við fréttastofu. Hún segir mat á slösuðum hafa farið fram á vettvangi og ákvarðanir um flutninga teknar í kjölfarið.

Að sögn Odds Freys Þorsteinssonar, upplýsingafulltrúa Rauða krossins, var fjöldahjálparstöð opnuð í grunnskólanum á Blönduósi í kjölfar slyssins en lokað fljótt aftur þar sem ekki þótti þörf á henni.

Rauði krossinn hefur komið að því í morgun að hlúa að farþegum í rútunni og mun veita áfallahjálp eftir þörfum. Móttaka fyrir aðstandendur verður í Lundi, húsnæði Rauða krossins á Akureyri.

Stjórnstöð Almannavarna var virkjuð í morgun og allir tiltækir viðbragðsaðilar kallaðir út vegna umferðarslyss á þjóðveginum sunnan við Blönduós. Hópferðabifreið fór utan vegar um klukkan fimm og eru farþegar sagðir hafa verið á þriðja tug.

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á Blönduósflugvelli skömmu fyrir sjö og við Landspítala um klukkan átta, með þrjá slasaða. Fréttastofa reyndi ítrekað að ná í viðbragðsaðila í morgun en þeir vörðust frétta og sögðu aðgerðir á vettvangi í fullum gangi.

Engar upplýsingar hafa fengist um það á hvaða leið bifreiðin var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×