Innlent

Þrír fluttir á sjúkra­hús með þyrlu Gæslunnar eftir al­var­legt slys

Hólmfríður Gísladóttir og Atli Ísleifsson skrifa
Þyrlan lenti við Landspítalann um klukkan átta í morgun.
Þyrlan lenti við Landspítalann um klukkan átta í morgun. Vísir

Þyrla Landhelgisgæslunnar og aðrir viðbragðsaðilar voru kallaðir út rétt eftir klukkan fimm í morgun eftir að tilkynning barst um mjög alvarlegt umferðarslys á þjóðveginum sunnan við Blönduós.

Frá þessu greinir mbl.is.

Miðillinn segir um að ræða hópferðabifreið og farþegar á þriðja tug.

Svo virðist sem bifreiðin hafi farið utan vegar. 

Samkvæmt upplýsingum frá Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, lenti önnur þyrla Landhelgisgæslunnar á Blönduósflugvelli skömmu fyrir sjö og er búist við að þrír verði fluttir með þyrlunni á Landspítalann í Reykjavík.

Ekki er útilokað að fleiri verði fluttir með sjúkrabifreiðum.

Ásgeir segir að tilkynning um slysið hafi borist til Landhelgisgæslunnar um klukkan 5:50. Hann segir að hin þyrla Gæslunnar sé stödd í útkalli norður af Vestfjörðum þar sem verið er að sækja veikan mann um borð í skemmtiferðaskipi.

Sá verður einnig fluttur til Reykjavíkur.

RÚV segir aðgerðastjórn og samhæfingamiðstöð almannavarna hafa verið virkjaða. Einhver slys hafa orðið á fólki en ekki er vitað hversu alvarleg.

Allt tiltækt lið sjúkraflutninga- og slökkviliðsmanna á Blönduósi, Hvammstanga, Sauðárkróki og Búðardal var kallað út auk tækjabíla. Þá hafa björgunarsveitir einnig verið kallaðar til.

Fréttastofa hefur verið í sambandi við viðbragðsaðila í morgun en allir verjast frétta.

Veistu meira um málið? Vísir tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×