Fótbolti

„Væri ekki hér ef ég hefði ekki trú á því að við gætum farið á annað stór­­mót“

Aron Guðmundsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson var fyrirliði Íslands í leiknum í gær.
Jóhann Berg Guðmundsson var fyrirliði Íslands í leiknum í gær. Vísir/Hulda Margrét

Jóhann Berg Guð­munds­son, starfandi lands­liðs­fyrir­liði ís­lenska karla­lands­liðsins í fót­bolta í fjar­veru Arons Einar Gunnars­sonar, hefur trölla­trú á því að ís­lenska lands­liðinu takist að tryggja sig inn á annað stór­mót.

Jóhann Berg sat fyrir svörum á blaða­manna­fundi ís­lenska lands­liðsins í dag fyrir leikinn gegn Lúxem­borg í undan­keppni EM 2024 á morgun

Þar var miðju­maðurinn knái spurður út í fjar­veru Arons Einars og hvort hann væri til í að hafa hann með í yfir­standandi verk­efni.

„Já klár­lega, auð­vitað væri til í að hafa hann hérna, hafa fyrir­liðann okkar á miðjunni. Hann gefur okkur mikið sjálfs­traust og ég væri ég klár­lega til í að gefa þetta fyrir­liða­band frá mér til þess að hafa Aron hér með okkur.“

En hefur Jóhann Berg trú á því að ís­lenska lands­liðið geti tryggt sig inn á annað stór­mót, líkt og liðið gerði bæði fyrir EM 2016 og HM 2018?

„Ég væri ekki hér ef ég hefði ekki trú á því að við getum farið á annað stór­mót. Úr­slitin hafa ekki verið að falla með okkur en það búa styrk­leikar í þessu liði til þess að snúa því við.

Ef við ætlum okkur að vera með í þessu þá þurfum við að sækja úr­slit strax á morgun. Við þurfum sex stig í þessum glugga til þess að tak þátt í þessari bar­áttu. Vonandi náum við að höndla pressuna.“

Horfði aftur á þrennuna sína í gær

Tíu ár voru liðin frá magnaðri þrennu Jóhanns Bergs gegn Sviss í 4-4 jafn­tefli ís­lenska lands­liðsins í undan­keppni HM 2014 . Jóhann Berg horfði aftur á þrennuna í gær.

„Já ég tók hana aftur í gær þegar að ég sá að tíu ár voru liðin frá henni. Ég viður­kenni það. Það var gaman að rifja þetta upp. Ég þarf hugsan­lega að halda upp á þetta af­mæli á morgun með annarri þrennu.“

Jóhann Berg er leik­maður enska fé­lagsins Burnl­ey sem er ný­liði í ensku úr­vals­deildinni og hefur átt erfitt upp­dráttar í byrjun tíma­bils og er án stig a á botni deildarinnar. Hann segir það gott að geta kúplað sig að­eins frá bar­áttunni með Burnl­ey og komið til móts við ís­lenska lands­liðið.

„Við erum búnir að eiga þrjá erfiða leiki á móti frá­bærum liðum og því klár­lega gott að komast í annað um­hverfi og hitta ís­lenska lands­liðið. Vonandi náum við að sækja þá sex punkta sem við þurfum til að eiga séns í þessum riðli.“

Leikur Lúxemborg og Íslands í undankeppni EM 2024 verður sýndur í beinni útsendingu og í opinni dagksrá á Stöð 2 Sport annað kvöld. Við hefjum upphitun fyrir leik klukkan 18:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×