Fótbolti

Nóg komið af nefndum: Jóhann Berg ræddi við Katrínu í morgun

Aron Guðmundsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Vísir/Samsett mynd

Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, lagði það til við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands í morgun að Ísland þyrfti á þjóðarleikvangi, líkt og liðið spilar á í Lúxemborg á morgun, að halda hér heima. 

Frá þessu greindi Jóhann Berg á blaðamannafundi íslenska karlalandsliðsins, fyrir leik liðsins ytra gegn Lúxemborg í undankeppni EM 2024 á morgun, en Katrín borðaði morgunmat í Lúxemborg með íslenska landsliðinu í morgun.

Leikvangurinn í Lúxemborg, þar sem leikur Íslands og Lúxemborgar fer fram, er glæsilegur. Hann tekur rúmlega níu þúsund manns í sæti og á blaðamannafundinum áðan var Jóhann Berg spurður að því hvort hann væri ekki til í að eiga eitt stykki svona leikvang hér heima á Íslandi.  

Þjóðarleikvangurinn í Lúxemborg er glæsilegur

„Jú algjörlega. Katrín Jakobsdóttir mætti nú í morgunmat til okkar í morgun. Ég sagði henni að við þyrftum einn svona völl heima á Íslandi. Við þurfum klárlega að hafa einn völl, það er ekki eins og við séum að biðja um eitthvað mikið, bara einn völl til þess að spila þessa mikilvægu leiki á þeim tímum sem ekki er víst að Laugardalsvöllurinn verði klár fyrir.“

Nóg sé komið af því að setja málefni um byggingu nýs þjóðarleikvangs í nefnd. Sér í lagi þar sem að núverandi þjóðarleikvangur sé vart löglegur og á mörgum undanþágum.

„Þetta er búið að vera í einhverjum nefndum síðastliðin tíu ár eða eitthvað. Það er spurning hvort við þrufum ekki að prófa eitthvað annað en að setja þetta í nefnd,“ sagði Jóhann Berg að lokum.

Leikur Lúxemborg og Íslands í undankeppni EM 2024 verður sýndur í beinni útsendingu og í opinni dagksrá á Stöð 2 Sport á morgun. Við hefjum upphitun klukkan 18:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×