Fótbolti

Spænska knatt­spyrnu­sam­bandið leitar leiða til að reka Vilda

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jorge Vilda gerði Spánverja að heimsmeisturum á dögunum.
Jorge Vilda gerði Spánverja að heimsmeisturum á dögunum. Angel Perez Meca/Europa Press via Getty Images

Spænska knattspyrnusambandið skoðar nú hvort það sé möguleiki á því að reka Jorge Vilda, þjálfara spænska kvennalandsliðsins.

Vilda, sem gerði spænska kvennalandsliðið að heimsmeisturum í fyrsta skipti í sögunni á dögunum, situr enn í starfi sínu þrátt fyrir að starfslið hans hafi sagt upp störfum í mótmælaskyni gegn Luis Rubiales. 

Rubiales er forseti spænska knattspyrnusambandsins, en hann hefur verið harðlega gagnrýndur eftir úrslitaleik HM þar sem hann smellti rembingskossi á Jenni Hermoso, leikmann spænska liðsins, að leik loknum gegn hennar vilja. Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA setti Rubiales í 90 daga bann frá afskiptum af fótbolta í kjölfarið, en hann hefur neitað að segja af sér.

Vilda sást hins vegar klappa fyrir Rubiales á þingi spænska sambandsins síðastliðinn föstudag þar sem forsetinn ítrekaði að hann myndi ekki segja af sér. Vilda hefur þó síðan gagnrýnt hegðun forsetans.

Spænska knattspyrnusambandið telur nú að hægt sé að færa rök fyrir því að hægt sé að reka Vilda úr starfi sem þjálfari spænska liðsins. Alls hefur 81 leikmaður sagt að hann muni ekki spila fyrir spænska landsliðið á meðan Rubiales er enn við völd, en þar á meðan eru allir 23 leikmenn liðsins sem tóku þátt á HM.

Það í bland við það sem lítur út fyrir að vera stuðningur Vilda við Rubiales séu næg rök til að reka Vilda úr starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×