Fótbolti

Kennir þjálfaranum um vonbrigðin á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Vlatko Andonovski og Lindsey Horan ræðast við eftir að Bandaríkin féllu úr leik fyrir Svíþjóð á HM.
Vlatko Andonovski og Lindsey Horan ræðast við eftir að Bandaríkin féllu úr leik fyrir Svíþjóð á HM. getty/Jose Breton

Fyrirliði bandaríska kvennalandsliðsins í fótbolta virtist kenna fráfarandi landsliðsþjálfara um slakt gengi Bandaríkjanna á HM. Hún var ekki sátt með leikáætlun hans.

Bandaríkin féllu úr leik fyrir Svíþjóð eftir vítaspyrnukeppni í sextán liða úrslitum á HM. Bandaríska liðinu mistókst því að verða heimsmeistari þriðja sinn í röð.

Eftir HM sagði Vlatko Andonovski starfi sínu sem landsliðsþjálfari Bandaríkjanna lausu. Landsliðsfyrirliðinn Lindsey Horan hafði eitt og annað við leikáætlun hans gegn Svíþjóð að segja í viðtali á dögunum og sagði að bandaríska liðið hafi ekki hrokkið almennilega í gegn fyrr en leikmennirnir tóku málin í sínar hendur.

„Í leiknum gegn Svíþjóð fannst mér skipulagið ekki beint vera sett upp til að við spiluðum eins og við spiluðum,“ sagði Horan.

„Það var ekki fyrr en við komum saman og sögðum: þetta er það sem við ætlum að gera. Þá virkaði þetta og við héldum því áfram. Hefði það getað gerst fyrr? Kannski. Þetta er erfitt.“

Horan sagði jafnframt að ungir leikmenn bandaríska liðsins hefðu ekki náð að blómstra vegna taktísks uppleggs Andonovskis.

„Mér fannst við ekki ná því allra besta fram hjá þeim út af því hvernig liðið var sett upp og vegna þess sem við gerðum í leikjum,“ sagði Horan.

Sem fyrr sagði hætti Andonovski sem þjálfari Bandaríkjanna eftir HM. Hann hafði stýrt liðinu frá 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×