Fótbolti

Gagn­rýnir konungs­fjöl­skylduna fyrir skrópið á úr­slita­leik stelpnanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vilhjálmur Bretaprins með börnum sínum Karlottu og Georgi en þarna eru þau að horfa á Wimbledon mótið í tennis.
Vilhjálmur Bretaprins með börnum sínum Karlottu og Georgi en þarna eru þau að horfa á Wimbledon mótið í tennis. Getty/Jed Jacobsohn

Sir Geoff Hurst var hetja ensku þjóðarinnar þegar enskt landslið varð heimsmeistari í fyrsta og eina skiptið fyrir 57 árum síðan.

Hurst skoraði þrennu í 4-2 sigri á Vestur-Þýskalandi í úrslitaleik HM á Wembley 1966.

Í gær áttu ensku landsliðskonurnar möguleika á því að endurtaka leikinn frá 1966 en þær urðu á endanum að sætta sig við 1-0 tap á móti Spáni og fengu því silfurverðlaunin um hálsinn.

Hurst gagnrýndi bresku konungsfjölskylduna fyrir að mæta ekki á úrslitaleikinn í Ástralíu.

Sir Geoff segir að ef konungsfjölskyldan mæti á karlaleiki þá eigi hún að mæta á kvennaleikina líka.

„Þetta er enskt landslið að keppa á HM. Meðlimur úr konungsfjölskyldunni átti án nokkurs vafa að mæta á leikinn,“ sagði Sir Geoff Hurst í viðtali á BBC Radio 4.

Spænska drottningin mætti á leikinn og Hurst segir að þetta sé morgunljóst.

„Það er ekki hægt að deila um þetta,“ sagði Hurst.

Vilhjálmur Bretaprins sendi enska liðinu stuðningskveðju fyrir leikinn ásamt Karlottu dóttur sinni.

Stuttu eftir leikinn þá gaf Vilhjálmur einnig frá sér yfirlýsingu um að ensku landsliðskonurnar hafi gert þjóð sína stolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×