Fótbolti

Tjáir sig á ný um rembings­kossinn heims­­fræga

Aron Guðmundsson skrifar
Kossinn hefur vakið heimsathygli
Kossinn hefur vakið heimsathygli Vísir/Samsett mynd

Jenni­fer Her­mos­o, leik­maður spænska lands­liðsins í fótbolta, segir að rembings­koss sem hún fékk á munninn frá for­seta spænska knatt­spyrnu­sam­bandsins hafi að­eins verið hans leið til að sýna ást­úð sína í kjöl­far þess að Spán­verjar tryggðu sér heims­meistara­titil kvenna í fót­bolta. Hún gerir lítið úr at­vikinu í yfir­lýsingu sem barst AFP frétta­veitunni.

Þegar Spán­verjar fengu af­hent gull­verð­laun sín, eftir sigur í úrslitaleiknum gegn Englendingum í gær, á­kvað Luis Ru­bi­a­les, for­seti spænska knatt­spyrnu­sam­bandsins, að taka utan um and­lit Her­mos­o og kyssa hana á munninn.

For­setinn hefur fengið á baukinn á sam­fé­lags­miðlum enda fólk al­mennt á því að gríðar­lega ó­við­eig­andi hegðun hafi verið að ræða.

„Eh … já, ég naut þess engan veginn,“ sagði Her­mos­o þegar hún var spurð út í at­vikið í við­tali skömmu eftir að heims­meistara­titillinn fór á loft.

„Eigum í góðu sambandi“

Nú hefur Her­mos­o tjáð sig á nýjan leik um kossinn fræga og vill hún ekki gera mikið úr honum, for­seti spænska knatt­spyrnu­sam­bandsins hafi með kossinum að­eins verið að sýna ást­úð.

„Þetta var bara spontant atvik sökum þeirrrar gríðar­legu á­nægju sem fylgir því að vinna heims­meistara­titilinn,“ segir Her­mos­o í yfir­lýsingu sem AFP frétta­veitunni barst frá spænska knatt­spyrnu­sam­bandinu.

„Við for­setinn eigum í góðu sam­bandi. Hegðun hans, gagn­vart okkur öllum, hefur verið fram­úr­skarandi. Þetta var bara hans leið til þess að sýna ást­úð og þakk­læti.“

Hún og aðrir leik­menn spænska lands­liðsins ætli nú að ein­beita sér að því að fagna heims­meistara­titlinum.

„Við ætlum ekki að láta draga at­hygli okkar frá því sem er mikil­vægast á þessari stundu,“ segir Her­mos­o, ný­krýndur heims­meistari með spænska lands­liðinu í fót­bolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×