Innlent

Í­búar Reykja­ness geti gert ráð fyrir stærri skjálftum næstu árin

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skjálftinn varð um 1,3 kílómetra norður af Keili.
Skjálftinn varð um 1,3 kílómetra norður af Keili. Vísir/Vilhelm

Jarðskjálfti sem varð seint í gærkvöldi á Reykjanesskaga var sá stærsti á svæðinu frá goslokum. Náttúruvársérfræðingur segir íbúa svæðisins geta gert ráð fyrir stærri skjálftum inn á milli næstu árin.

Skjálfti 2,9 að stærð mældist norður af Keili klukkan rúmlega tíu í gærkvöldi. Um er að ræða stærsta skjálftann á Reykjanesskaga frá því að eldgosinu við Litla-Hrút lauk formlega fyrir fimm dögum síðan.

Hildur María Friðriksdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir skjálftann ekki merki um að nýtt eldgos sé á leiðinni. Í raun bendi ekkert til þess.

„Það segir svo sem ekki mikið því þetta er bara mjög jarðskjálftavirkt svæði almennt. Þegar eldgosið hættir, það er viss spennulosun í eldgosinu sjálfu, þannig þegar það hættir þá þarf spennan að losna öðruvísi, það gerist oft með svona jarðskjálftum. Við erum búin að vera að sjá mikið af jarðskjálftum á öllu Reykjanesinu, út á hrygg og þannig er þetta eiginlega bara orðið. Við erum að fá mjög reglulega jarðskjálfta á þessu svæði,“ segir Hildur. 

Veðurstofunni bárust engar tilkynningar frá fólki sem fann fyrir skjálftanum. Hildur segir það hæpið að nokkur hafi tekið eftir honum þar sem hann náði ekki einu sinni upp í þrjá að stærð. Hún segir íbúa Reykjanesskaga geta gert ráð fyrir skjálftum sem þessum inn á milli næstu árin.

„Ég get alveg séð það fyrir mér, við erum náttúrulega í virkum kafla núna á Reykjanesi þannig við getum alveg gert ráð fyrir þessu næstu árin,“ segir Hildur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×