Fótbolti

Há­vær orð­rómur en Eng­lendingar munu hafna öllum til­boðum

Aron Guðmundsson skrifar
Sarina Wiegman hefur verið að gera frábæra hluti með enska landsliðið
Sarina Wiegman hefur verið að gera frábæra hluti með enska landsliðið Vísir/Getty

Enska knatt­spyrnu­sam­bandið mun hafna öllum til­boðum sem kunna að berast í Sarinu Wi­eg­man, lansliðs­þjálfara kvenna­lands­liðsins, en orð­rómur er um að banda­ríska knatt­spyrnu­sam­bandið vilji fá hana til liðs við sig.

Vlat­ko Andonovski hefur sagt starfi sínu sem lands­liðs­þjálfari banda­ríska kvenna­lands­liðsins lausu eftir sögu­lega slakan árangur liðsins á yfir­standandi heims­meistara­móti og er því sam­bandið við í þjálfara­leit.

Á sama tíma hefur Wi­eg­man verið að gera frá­bæra hluti með enska lands­liðið undan­farin ár, gert liðið að Evrópu­meisturum og nú er liðið einu skrefi frá sjálfum heims­meistara­titlinum. Fyrir stjórnar­tíð sína með enska lands­liðið hafði Wi­eg­man gert lands­lið Hollands að Evrópu­meisturum.

Enska landsliðið varð Evrópumeistari á heimavelli árið 2022 Vísir/Getty

Þrátt fyrir að stutt sé síðan að fréttir af af­sögn Andonovski bárust er Wi­eg­man strax orðuð við lands­liðs­þjálfara­starfið hjá Banda­ríkjunum en fram­kvæmda­stjóri enska knatt­spyrnu­sam­bandsins segir af og frá að hún skipti yfir.

„Þessir orð­rómar hafa að sjálf­sögðu ekki farið fram hjá okkur,“ sagði Mark Bulling­ham, fram­kvæmda­stjóri enska knatt­spyrnu­sam­bandsins í samtali við The Guardian. 

„Frá okkar hlið standa málin þannig að Wi­eg­man er með samning við okkur til ársins 2025. Hún er að gera frá­bæra hluti með liðið og við erum miklir stuðnings­menn hennar. Hún er þjálfari sem við viljum hafa hjá okkur til lengri tíma litið.“

Sama hvað það kostar?

„Já þetta snýst ekki um peninga. Við erum mjög, mjög á­nægð með hennar störf og teljum að hún sé á­nægð hjá okkur. Ég hugsa að það sé svar mitt við þessu.“

Við­ræður um nýjan samning enska knatt­spyrnu­sam­bandsins við Wi­eg­man muni eiga sér stað að heims­meistara­mótinu loknu.

Titlaóð WiegmanVísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×