Innlent

„Það er hægt að gera miklu, miklu, miklu betur“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Funi Sigurðsson framkvæmdastjóri Barna-og fjölskyldustofu
Funi Sigurðsson framkvæmdastjóri Barna-og fjölskyldustofu Vísir/Arnar

Framkvæmdastjóri Barna-og fjölskyldustofu segir hægt að gera miklu, miklu, miklu betur í málefnum barna með fjölþættan vanda. Stýrihópur barnamálaráðherra leggur fram á annan tug tillagna um úrbætur. Verði þær að veruleika er búist við milljarða sparnaði.

Barnamálaráðherra ætlar að leggja fram framkvæmdaáætlun í barnavernd og tillögur um aukna þjónustu við börn með fjölþættan vanda á haustþingi. Hann kynnti málið fyrir fagfólki í morgun. 

Búist við að hægt verði að draga úr kostnaði

Talið er að um hundrað og þrjátíu börn hér á landi eigi í fjölþættum vanda og hefur kostnaður sveitarfélaga vegna málaflokksins numið um fimm til sex milljörðum á ári.  

Funi Sigurðsson framkvæmdastjóri hjá Barna-og fjölskyldustofu og nefndarmaður í stýrihópnum um börn með fjölþættan vanda segir brýnt að tillögur hópsins nái fram að ganga. Nefndarmenn hafi verið beðnir að hugsa ekki um kostnað í nefndarstörfum sínum og niðurstaðan hafi verið fjórtán nýjar tillögur til úrbóta. 

„Stærsta niðurstaðan er að það er hægt að gera miklu, miklu, miklu betur. Það hefur verið mjög einsleitt hvernig þjónustan við þennan hóp hefur verið og við erum að koma þarna með tillögur þar sem verið er að auka gæði hennar og fjölbreytileikann,“ segir hann. 

Funi segir að kostnaður við hverja tillögu hafi verið metinn og niðurstaðan komi á óvart.

„Verði tillögurnar að veruleika þá er talið að þær muni spara um einn til tvo milljarða króna,“ segir hann að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×