Innlent

Ís­lendingur með dólgs­læti hand­tekinn í Pól­landi

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Pólsk lögregla. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Pólsk lögregla. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Getty

Íslenskur karlmaður var handtekinn í pólsku borginni Gdansk síðastliðið fimmtudagskvöld eftir að hann ruddist drukkinn inn á hótel í miðborginni og olli skemmdum.

Frá þessu greinir pólski fréttamiðilinn Zawsze Pomorze.

Fram kemur að síðastliðið fimmtudagskvöld hafi lögreglan verið kölluð til á hótel í Śródmieście hverfinu í miðborg Gdansk.

Karlmaður, sem ekki var gestur á hótelinu, hafði þá komið inn á hótelið og byrjað að sparka niður hurðir á tveimur herbergjum.

Fram kemur að um sé að ræða 33 ára gamlan íslenskan ferðamann.

Áður en lögreglan náði að yfirbuga manninn hafði hann þegar náð að valda tjóni upp á tæp tvö þúsund slot, eða 65 þúsund íslenskar krónur.

Fram kemur að hinn handtekni hafi verið ölvaður. Hann sætir nú ákæru vegna eignatjóns en brot hans eru sögð varða allt að fimm ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×