Fótbolti

Skagamenn nálgast toppinn og dramatík í Þorlákshöfn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gísli Laxdal skoraði mark Skagamanna í kvöld.
Gísli Laxdal skoraði mark Skagamanna í kvöld. Mynd/Bára Dröfn

ÍA vann mikilvægan 1-0 útisigur er liðið heimsótti Fjölni í toppbaráttuslag Lengjudeildar karla í knattspyrnu í kvöld. Á sama tíma vann Þór frá Akureyri dramatískan 3-2 útisigur gegn Ægi í Þorlákshöfn og Leiknismenn eru komnir með sex sigra í röð eftir 2-1 sigur gegn Gróttu.

Það var Gísli Laxdal Unnarsson sem skoraði eina mark leiksins er ÍA vann mikilvægan sigur gegn Fjölni í kvöld, en sigurinn þýðir að Skagamenn eru nú aðeins þremur stigum á eftir toppliði Aftureldinga og fjórum stigum fyrir ofan Fjölni sem situr í þriðja sætinu.

Í Þorlákshöfn var boðið upp á dramatík þar sem Bjarni Guðjón Brynjólfsson og Alexander Már Þorláksson sáu til þess að Þórsarar leiddu 2-0 gegn Ægi. Heimamenn jöfnuðu þó metin með marki frá Ivo Braz og sjálfsmarki frá Bjarka Þór Viðarssyni, en Nökkvi Hjörvarsson endurheimti forystu norðanmanna og tryggði um leið sigurinn á fjórðu mínútu uppbótartíma.

Þá sáu þeir Róbert Quental Árnason og Arnór Ingi Kristinsson um markaskorun Leiknis er liðið vann 2-1 sigur gegn Gróttu. Axel Sigurðarson skoraði mark gestanna, en þetta var sjötti sigur Leiknis í röð og liðið situr nú í fjórða sæti með 26 stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara fengust á Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×