Innlent

Ástarvettlingar og bjórvettlingar á Laugarbakka

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Regína Ólína Þórarinsdóttir, sem rekur Handverkshúsið Löngufit á Laugarbakka í Miðfirði hér með bjór í bjórvettling.
Regína Ólína Þórarinsdóttir, sem rekur Handverkshúsið Löngufit á Laugarbakka í Miðfirði hér með bjór í bjórvettling. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ástarvettlingar og bjórvettlingar hafa rokið út í sumar hjá handverkshúsinu Löngufit á Laugarbakka í Miðfirði þar sem kennir ýmissa grasa. Á staðnum er líka kaffihús og vinsælt tjaldsvæði.

Það er Regína Ólína Þórarinsdóttir, sem hefur rekið handverkshúsið í 12 ár. Hún er líka með lítið kaffihús þar sem vöfflurnar eru bakaðar úr eggjum frá frjálsum hamingjusömum hænum og þá er tjaldsvæðið hjá henni mjög vinsælt undir ættarmót. Regína er líka með gistiheimili.  Á markaðnum eru vörur frá fólki úr sveitinni og næsta nágrenni.

„Það eru peysur og vettlingar og ástarvettlingar og margt, margt fleira. Ég er líka með vísir af steinasafni. Þetta er mjög skemmtilegt því ég hitti svo mikið af skemmtilegu fólki og svo koma hérna skrýtnir menn eins og þú,” segir Regína hlægjandi og á þá við þann, sem þetta skrifar.

Regína segir að ástarvettlingarnir hafi slegið í gegn í sumar hjá henni.

„Þetta eru vettlingar svo fólk geti leiðst en haft samt vettling svo því verði ekki kalt. Þessir vettlingar hafa rokselst hjá mér í sumar”, segir Regína.

Ástarvettlingarnir eru mjög vinsælir hjá Regínu.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En það er meira sem vekur athygli og kátínu hjá Regínu.

„ Já það er bjórvettlingurinn, þá þarf þér ekki að vera kalt á hendinni með ískaldan bjórinn, þessir vettlingar rjúka líka út”.

Ferðamenn eru mjög duglegir að heimsækja handverkshúsið hjá Regínu á Laugarbakka.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×