Innlent

Krefur ráðherra svara um hvalveiðibann

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, hefur sent Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, bréf þar sem hann krefur hana svara við ýmsum spurningum er lúta að hvalveiðibanni hennar.
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, hefur sent Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, bréf þar sem hann krefur hana svara við ýmsum spurningum er lúta að hvalveiðibanni hennar. Vísir/Vilhelm

Umboðsmaður Alþingis hefur sent Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra, bréf þar sem hann óskar eftir svörum um það hvort reglugerð sem bannar hvalveiðar tímabundið hafi verið gefin út og send til birtingar í Stjórnartíðindum áður en ríkisstjórnin var upplýst um setningu hennar.

Reglugerðin umdeilda var birt og tók gildi sama dag og fundur ríkisstjórnar var haldinn þar sem Svandís greindi frá ákvörðun sinni.

Morgunblaðið fjallar um málið í dag og hefur bréfið undir höndum. 

Blaðið segir að í bréfi sínu bendi umboðsmaður á að stjórnvöld geti ekki tekið ákvörðun, sem sé í eðli sínu stjórnvaldsákvörðun, í formi almennra stjórnvaldsfyrirmæla og þannig komist hjá því að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem lög mæla fyrir um.

Spurningaflóð umboðsmanns

Þá krefur umboðsmaður ráðherrann svara við ýmsum spurningum er lúti að málinu.

Hann spyr hvort reglu­gerðin sé byggð á sjón­ar­miðum um vel­ferð dýra en um hana gildi sér­stök lög. Samkvæmt þeim sé ráðherra falið að setja í reglu­gerð nán­ari ákvæði um veiðiaðferðir í sam­ráði við þann ráðherra sem fer með stjórn veiða á villt­um fugl­um og spen­dýr­um, sem er um­hverf­is-, orku- og auðlindaráðherra.

Þá tel­ur umboðsmaður nauðsyn­legt að setja reglu­gerð um veiðiaðferðir til að tryggja að aflífun taki sem skemmstan tíma og valdi sem minnst­um sárs­auka. Því óskar hann skýringa á því hvort heim­ilt hafi verið að byggja reglu­gerðina um veiðibann á ákvæðum laga um hval­veiðar en ekki á lög­um um vel­ferð dýra.

Einnig spyr umboðsmaður hvernig álit fagráðs um vel­ferð dýra hafi orðið til þess að ráðherra gaf út reglu­gerð á grund­velli laga um hval­veiðar en horfði ekki til úrræða Mat­væla­stofn­un­ar í mál­inu. Ekki verði séð að hlut­verk fagráðsins sé að vera mat­vælaráðherra til ráðgjaf­ar um fram­kvæmd laga á sviði sjáv­ar­út­vegs­mála.

Þá spyr hann af hverju um­sögn fagráðs um málið hafi ekki verið bor­in und­ir Mat­væla­stofn­un áður en ákvörðun um reglu­gerðar­setn­ing­una var tek­in og hvernig það geti sam­rýmst regl­um stjórn­sýslu­rétt­ar og sjón­ar­miðum um vandaða stjórn­sýslu­hætti.


Tengdar fréttir

Áskorun til kvenna – dýravelferð verður baráttumál

Við fórum nokkur úr Samtökum um dýravelferð á fundinn um hvalveiðar á Akranesi í gær. Við gátum ekki hugsað okkur að að láta matvælaráðherrann okkar, Svandísi Svavarsdóttur, standa þar ein að verja ákvörðun sína um að fresta hvalveiðum.

Gjör­sam­lega brjálaður og býst við stjórnar­slitum

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur haft samband við lögmann til að kanna réttarstöðu hvalveiðimanna. Hann segir ákvörðun um að stöðva vertíðina glórulausan pópúlisma.

Engar hvalveiðar í sumar

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að stöðva veiðar á langreyðum í sumar. Til stóð að hefja hvalveiðar á morgun en nú er ljóst að það verður ekki gert fyrr en 1. september, í fyrsta lagi. „Nú er spurningin sú hvort þessi atvinnugrein eigi sér yfir höfuð framtíð,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×