Fótbolti

Segir að það sé ekki á á­byrgð FIFA að borga knatt­spyrnu­konunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, ræddi við fjölmiðlafólk í tilefni þess að HM kvenna verður sett í Nýja Sjálandi á morgun.
Gianni Infantino, forseti FIFA, ræddi við fjölmiðlafólk í tilefni þess að HM kvenna verður sett í Nýja Sjálandi á morgun. Getty/Harold Cunningham

Gianni Infantino, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, leggur áherslu á það að það sé undir knattspyrnusamböndum hvers lands komið að knattspyrnukonurnar fái jafnmikið og karlarnir.

FIFA hefur hækkað verðlaunaféð á HM kvenna en það er samt enn langt á eftir því sem þekkist á heimsmeistaramóti karla.

FIFA er vissulega í fyrsta sinn að reyna að tryggja það að hluti verðlaunafés fari til leikmanna sjálfra en Infantino ítrekar það að það sé ekki á ábyrgð FIFA að borga knattspyrnukonunum heldur knattspyrnusambandanna sem hafi áfram frelsi til að eyða stærsta hluti peningsins frá FIFA í það sem þau vilja.

Í júni var tilkynnt að hver leikmaður á HM kvenna ætti að fá að minnsta kosti þrjátíu þúsund Bandaríkjadala frá FIFA en þetta eru rétt tæpar fjórar milljónir íslenskra króna.

Infantino er samt á því að það sé ekki fýsilegt að þvinga samböndin til að borga leikmönnum. FIFA er því aðeins að biðja samböndin um að hluti umræddar greiðslu fari til leikmanna.

„Við höfum gefið út ráðleggingar en við erum samband sambandanna. Þess vegna munu allar greiðslur frá okkur fara til sambandanna og þau sjá síðum um að borga sínum eigin leikmönnum,“ sagði Gianni Infantino.

„Við erum í sambandi við fulltrúa sambandanna en það eru mismunandi aðstæður út um allan heim. Skattar, búseta og annað. Það þýðir meðal annars að það eru önnur samkomulag við leikmenn þegar til staðar,“ sagði Infantino.

„Við höfum verið að taka tímamóta ákvarðanir en þetta er ekki endirinn á þessari sögu,“ sagði Infantino.

Það sést á orðum Infantino að það er langt frá því öruggt að knattspyrnukonurnar á HM fá þessar fjórar milljónir. Meðallaun knattspyrnukvenna í heiminum er minna en helmingur þeirrar upphæðar og því getur svona peningur breytt miklu.

Leikmenn landsliða hafa verið í deilum við forystufólk síns sambands og ekki nærri því allar komnar með samning sem þær eru sáttar við.

Það eru margir þættir sem stuðla að því að það er enn mjög langt í land þegar kemur að jafnrétti fyrir knattspyrnukonur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×