Erlent

Nassar stunginn tíu sinnum í fangelsinu í Flórída

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Brotin framdi Nassar undir yfirskini meðferðar. Þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir til yfirboðara hans var ekkert gert.
Brotin framdi Nassar undir yfirskini meðferðar. Þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir til yfirboðara hans var ekkert gert. AP/Paul Sancya

Larry Nassar, fyrrverandi læknir landsliðs Bandaríkjanna í fimleikum, var stunginn að minnsta kosti tíu sinnum í fangelsinu þar sem hann dvelur. Nassar var dæmdur í 175 ára fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega á liðsmönnum landsliðsins.

Samkvæmt heimildum CBS News var Nassar stunginn tvisvar í hálsinn, tvisvar í bakið og sex sinnum í brjóstkassann. Annað lunga hans féll saman og hann dvelur nú á spítala en ástand hans er sagt stöðugt.

Nassar afplánar dóm sinn í Coleman-fangelsinu í Flórída en fleiri en 300 stúlkur og konur stigu fram á sínum tíma og sökuðu lækninn um að hafa brotið gegn sér. Meðal þeirra voru þekktustu fimleikastjörnur Bandaríkjanna, til dæmis Simone Biles og Aly Raisman.

Brotin framdi Nassar bæði við störf sín fyrir landsliðið og við Michigan State University. Báðir aðilar samþykktu að greiða fórnarlömbum læknisins samtals 880 milljónir dala í miskabætur.

Nassar var einnig ákærður fyrir vörslu barnaníðsefnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×