Innlent

Nýjar kirkjutröppur á Akureyri tilbúnar í október

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sigurður Gunnarsson, verkefnisstjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ við tröppurnar, sem hafa nú verið meira og minna mokaðar í burtu fyrir nýjum tröppum.
Sigurður Gunnarsson, verkefnisstjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ við tröppurnar, sem hafa nú verið meira og minna mokaðar í burtu fyrir nýjum tröppum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Vinsælustu kirkjutröppum landsins hefur verið lokað en það eru tröppurnar við Akureyrarkirkju. Ástæðan er sú að það á að útbúa nýjar tröppur með snjóbræðslu í öllum þrepum og pöllum. Kostnaður við verkið er um tvö hundruð milljónir króna.

Flestir sem heimsækja Akureyri koma við í tröppunum og nota tækifærið þá jafnvel í leiðinni til að skoða Akureyrarkirkju. Þá eru heimamenn líka duglegir að nota tröppurnar.

„Verktakar eru núna farnir að girða sig af hérna til þess að fara í endurbætur á öllum tröppunum og byrja hér með látum að ryðja gömlu tröppunum niður og síðan verður farið í að steypa upp nýjar tröppur,“ segir Sigurður Gunnarsson, verkefnisstjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ og bætir við.

“Þetta er bara löngu tímabært, þetta eru gamlar tröppur. Það var rafmagnskinding í tröppunum, sem er löngu ónýt og hér myndaðist bara hálka á vetrum og vandræði og síðan var lýsingin öll orðin ónýt líka, þannig að það er verið að endurnýja það allt saman og svo er steypan í mannvirkinu sjálfu bara búin.“

Sigurður segir mjög erfitt að þurfa að loka svæðinu yfir hásumarið en framkvæmdin sé bráðnauðsynleg.

Kirkjutröppurnar eru 102 talsins að sögn Sigurðar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hver er verðmiðinn á þessari framkvæmd?

„Ég held að heildarkostnaður sé um tvö hundruð milljónir áætlað,“ segir Sigurður.

En hvenær verður svo framkvæmdunum við kirkjutröppurnar formlega lokið og nýjar teknar í notkun?

„Við reiknum kannski með í október í haust, tíminn í verksamningi er þannig,“ segir Sigurður að lokum.

Hér má sjá þá lokun, sem er í gangi og hvar er helst að ganga á meðan.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×