Viðskipti innlent

Fékk 11 milljónir aukalega vegna undirbúnings sölunnar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka Vísir/Egill

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, fékk 10,9 milljónir greiddar aukalega árið 2021 vegna yfirvinnu í tengslum við undirbúning hlutafjárútboðs og skráningar bankans á markað.

Alls námu launagreiðslur til Birnu það ár 68,6 milljónum króna, eða 5,7 milljónum króna að meðaltali á mánuði. Á árinu 2020 fékk hún 60,3 millj­ónir króna í laun eða um fimm millj­ónir króna á mán­uð­i.

Kjarninn greindi frá þessum greiðslum á sínum tíma. 

Samkvæmt ársreikningi fékk Birna greiddar 59,8 milljónir í laun í fyrra, en fram kemur að greiðslur vegna yfirvinnu eru ekki innifaldar í þeirri tölu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um greiðslur vegna yfirvinnu í tengslum við seinna útboð bankans árið 2022, sem eingöngu var beint til fagfjárfesta. 

Spjótin hafa beinst að Birnu frá því að samkomulag Seðlabankans og Íslandsbanka, vegna sölu á hlut ríkisins í bankanum, var birt. Þar kemur meðal annars fram að bankinn og Birna bankastjóri hafi ekki innleitt stjórnarhætti og innra eftirlit með fullnægjandi hætti. Var bankanum gert að greiða tæplega 1,2 milljarða króna í sekt. 

Birna segist sjálf ekki íhuga að segja af sér. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×