Innlent

Vildi vernda starfs­menn fyrir á­rásum Kol­brúnar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Einar segir ekki sitt að svara fyrir skrifstofustjóra sem hafi forræði yfir starfsmannamálum. Kolbrún vildi leggja fram bókun vegna starfsmanna á borgarráðsfundi.
Einar segir ekki sitt að svara fyrir skrifstofustjóra sem hafi forræði yfir starfsmannamálum. Kolbrún vildi leggja fram bókun vegna starfsmanna á borgarráðsfundi. Vísir

For­maður borgar­ráðs segir að sér hafi runnið blóðið til skyldunnar að vernda starfs­menn borgarinnar á borgar­ráðs­fundi í gær. Odd­viti Flokks fólksins er ó­sáttur við að hafa ekki fengið að leggja fram bókun vegna um­deildra sam­skipta starfs­manna sem odd­vitinn segir ekki spretta upp í tóma­rúmi. 

Formaðurinn segir bókunina hafa verið ó­nær­gætna og rætna en mann­réttinda­stjóri Reykja­víkur­borgar segist hafa boðað til fundar með í­búa­ráði vegna sam­skipta starfs­mannanna.

„Mér rann blóðið til skyldunnar að vernda þau fyrir þessum á­rásum. Það er ekki hefð fyrir því að borgar­ráð sé notað með þessum hætti til að ráðast á starfs­menn borgarinnar,“ segir Einar Þor­steins­son for­maður borgar­ráðs spurður að því hvers vegna Kol­brún Baldurs­dóttir, odd­viti Flokks fólksins, hafi ekki fengið að leggja fram bókun á borgar­ráðs­fundi í gær vegna um­deildra sam­skipta starfs­manna borgarinnar.

Sam­skiptin hafa verið í fréttum undan­farna daga. Starfs­mennirnir ræddu sín á milli á Face­book Mess­en­ger hvernig best væri að koma sér undan spurningum íbúa í Laugar­dal um dag­vistunar­vanda.

Kol­brún segist gríðar­lega ó­sátt að hafa ekki fengið að leggja fram bókunina vegna sam­skipta starfs­mannanna á borgar­ráðs­fundi í gær. Svo virðist vera sem ekki megi ræða mál sem séu erfið fyrir meiri­hlutann. Hún segir málið ekki snúast um starfs­mennina tvo heldur við­horf sem þau virðast hafa, miðað við sam­skipti þeirra.

Veltir vöngum yfir við­horfinu

„Fólk kemur ekkert með svona við­horf til vinnu og ég held það sé gríðar­lega nauð­syn­legt að ræða þessi við­horf til íbúa því að þarna sjáum við svart á hvítu hvernig talað er um íbúa og þetta er búið að særa gríðar­lega marga, sér­stak­lega full­trúa í í­búa­ráðum sem hefur fundist þau raun­veru­lega vinna að breytingum fyrir hverfið sitt.“

Kol­brún segist skilja vel að full­trúar meiri­hlutans vilji vernda starfs­mennina tvo. „En þetta er þeirra hugsun. Þau voru að reyna að vængstýfa ráðið með öllum ráðum og dáðum. Það hefur enginn spurt um líðan þeirra sem eru í í­búa­ráðinu, sem fá svona stöppu framan í sig. Ég hef fengið sím­tal frá því fólki sem er miður sín vegna þessa.“

Kol­brún gerir sam­skipti starfs­mannanna einnig að um­tals­efni í að­sendri grein á Vísi. Þar segir hún í­búa­ráðin nú að­eins virðast vera leik­svið meiri­hlutans.

„Í­búa­ráðin eru ekki að virka, lýð­ræðis­leg um­ræða blómstrar ekki og sú grenndar­þekking sem býr í full­trúum ráðsins er van­nýtt. Vand­ræða­leg fram­ganga starfs­manna síðasta fundar, bera þessu vitni.“

Kolbrún segir af og frá að bókun sín hafi verið rætin líkt og Einar segir. Hún sendi Vísi bókunina og stendur við orð sín um að meirihlutinn hafi einfaldlega hafa viljað þagga málið niður.

Bókun Flokks fólksins:

„Fulltrúi Flokks fólksins er sleginn yfir neikvæðu og niðrandi viðhorfi/tal tveggja starfsmanna sem opinberuðust ráðsmönnum fyrir mistök starfsmannanna sjálfra á fundi íbúaráðs Laugardals. Á tali starfsmannanna reyndu þeir að hindra framgang mála m.a. til að mál/bókanir rötuðu ekki í fundargerð.

Hvernig eiga ráðsmenn að sinna hlutverki sínu í ráðinu, eins og það er skilgreint í samþykktum, eftir að hafa hlustað á svona samtal? Eiga þeir bara að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist ?

Hvernig á að ríkja traust nú þegar vitað er hvað þarna er að baki?

Er hægt að treysta Mannréttinda og lýðræðisskrifstofu?

Frá upphafi hefur íbúaráðum ekki verið sýnd nægjanleg virðing af borgaryfirvöldum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins. Flokkur fólksins hefur fengið upplýsingar um að ítrekað er fyrirspurnum fulltrúa í ráðinu seint og illa svarað og sama gildir um fyrirspurnir frá íbúaráðinu sjálfu. Ítrekað hefur “boðuð umræða”, með fagfólki borgarinnar verið slegin af dagskrá funda með stuttum fyrirvara. Vettvangurinn virðist að þessu leyti sýndar-samráð nú þegar við höfum séð hvernig starfsmenn í boði Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu leika sér að ráðsmönnum og gera allt hvað þeir geta til að vængstýfa íbúaráðið.“

Boðar til fundar með í­búa­ráði Laugar­dals

Einar Þor­steins­son, for­maður Borgar­ráðs, kveðst ekki vilja tjá sig um mál starfs­mennina fyrir skrif­stofu­stjóra sem hafi for­ræði yfir starfs­manna­málum. Hann segir þó að hann hafi viljað koma starfs­mönnunum til varnar á fundi borgar­ráðs í gær.

Anna Kristins­dóttir, mann­réttinda­stjóri Reykja­víkur­borgar og yfir­maður starfs­mannanna tveggja segir í skrif­legu svari til Vísis að hún hafi boðað til fundar með í­búa­ráði Laugar­dals á­samt starfs­mönnunum sem um ræðir.

„Til þess fara yfir þessu leiðu mis­tök. Fundurinn verður á mánu­dag. Í fram­haldinu verður skerpt á verk­lagi við fram­kvæmd í­búa­ráðs­funda þegar í­búa­ráðin koma saman á ný í ágúst.“

Einar segir Kol­brúnu hafa viljað leggja fram bókun sem hafi verið afar ó­nær­gætna og rætna í garð tveggja ó­breyttra starfs­manna Reykja­víkur­borgar.

„Það er afar ó­eðli­legt að kjörinn full­trúi leggi slíka bókun fram í borgar­ráði. Á stórum vinnu­stað gerast mörg mis­tök á hverjum degi og borgar­ráð er ekki vett­vangur fyrir kjörna full­trúa til þess að ráðast að al­mennum starfs­mönnum að þeim fjar­stöddum og þar sem þeir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér,“ segir Einar.

Um sé að ræða við­kvæmt ein­stak­lings­bundið starfs­manna­mál sem sé í höndum yfir­manna.

„Kol­brúnu er frjálst að stunda sína pólitík gegn öðrum kjörnum full­trúum og gagn­rýna þá. En mér finnst afar ó­við­eig­andi hvernig hún beitir sér með ó­vægnum hætti gegn starfs­mönnum sem verða á mis­tök.“

Fréttin hefur verið uppfærð með bókun Flokks fólksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×