Erlent

Apar pyntaðir í á­góða­skyni öðrum til skemmtunar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á myndinni sjást apar af þeirri tegund sem oftast er pyntuð á myndskeiðunum.
Á myndinni sjást apar af þeirri tegund sem oftast er pyntuð á myndskeiðunum. Getty

BBC hefur birt umfjöllun um fjölmenna hópa á samfélagsmiðlum þar sem rætt er um, óskað eftir og deilt myndskeiðum þar sem apar eru pyntaðir, stundum til dauða. Um er að ræða pyntinga-hring, þar sem fólk getur greitt fyrir myndskeið þar sem apar eru pyntaðir á umbeðinn máta.

Samkvæmt BBC teygir „starfsemin“ sig frá Indónesíu til Bandaríkjanna en yfirvöld hafa málið til rannsóknar og hafa bæði gerendur og kaupendur verið handteknir.

Hóparnir eru sagðir hafa byrjað að myndast á YouTube en fært sig yfir á Telegram. Blaðamenn fengu aðgang að einum hópnum á Telegram, þar sem hundruð manna skiptust á hugmyndum um pyntingar og greiddu einstaklingum á Indónesíu og víðar í Asíu fyrir að framkvæma þær og taka upp á myndband.

Oftast er um að ræða Macaque-apa, sem eru misnotaðir, pyntaðir og stundum drepnir.

Samkvæmt BBC sæta að minnsta kosti 20 einstaklingar rannsókn, meðal annars einstaklingar í Bandaríkjunum og Bretlandi. Einn þeirra sem er þekktur fyrir að dreifa myndskeiðunum, kallaður „The Torture King“, eða „Pyntingakonungurinn“, samþykkti að ræða við miðilinn.

Hann lýsir meðal annars skoðanakönnun í einum Telegram-hópnum þar sem spurt var að því hvort menn vildu sjá hamar beitt, töngum eða skrúfjárni. Myndskeiðið sem var „framleitt“ í kjölfarið segir hann hafa verið eitt það ógeðfelldasta sem hann hafi séð.

Aðrir sem hafa verið nefndir í tengslum við rannsókn lögreglu eru Stacey Storey, amma í Alabama í Bandaríkjunum, kölluð „Sadistic“, og maður sem BBC kallar einfaldlega „Mr Ape“.

Mr Ape játaði í viðtali við BBC að hann bæri ábyrgð á dauða að minnsta kosti fjögurra apa og pyntingum mun fleiri. Hann hefði óskað eftir mjög grófum myndskeiðum.

Lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum lögðu hald á síma Storey, sem geymdi nærri hundrað pyntingarmyndskeið auk gagna sem sýndu fram á að hún hafði greitt fyrir nokkur af grófustu myndskeiðunum sem vitað er um.

Storey og Mr Ape hafa ekki verið ákærð en eiga yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi.

Tveir hafa þegar verið handteknir og dæmdir í fangelsi í Indónesíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×