Innlent

Engar sýni­legar breytingar á virkni í Gríms­vötnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Viðhaldi sinnt á mælitækjum á Vatnajökli.
Viðhaldi sinnt á mælitækjum á Vatnajökli. Mynd/Hrafnhildur Hannesdóttir

Engar sýnilegar breytingar eru á virkni í Grímsvötnum en frá áramótum hafa um tíu til þrjátíu skjálftar mælst þar í hverjum mánuði. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands en árleg vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul var farin fyrstu vikuna í júní.

Í ferðinni var viðhaldi m.a. sinnt á jarðskjálftamælum og GPS stöðvum á jöklinum, einnig voru settur út jarðskjálftanemar á íshellu Grímsvatna. Leiðbeiningar voru settar upp í skálanum á Grímsfjalli varðandi viðbrögð við eldgosi eða öðrum jarðhræringum á svæðinu fyrir ferðafólk.   

„Gasmælingar hafa verið gerðar árlega í vorferðinni nærri gosstöðvunum 2011 í Grímsvötnum, en það var ekki mögulegt í ár vegna þess að virknin hefur minnkað og jökullinn búinn að skríða fram og yfir svæðið þar sem mælingar hafa farið fram. Einnig var aðgengi erfitt, en talsvert var af sprungum í kringum svæðið. Veðurstofan rekur gasmæli uppi á Saltaranum, nærri Grímsfjalli, sem sendir gögn í rauntíma og hefur ekki sýnt breytingar undanfarið,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Frá síðustu áramótum hafa um það bil 10 - 30 skjálftar stærri en 1,0 mælst í hverjum mánuði í Grímsvötnum, þar sem mest virknin var í seinnihluta apríl og byrjun maí. Stærsti skjálfti ársins 2023 mældist 3,3 að stærð þann 23. Apríl. 

Dregið hefur úr skjálftavirkninni frá því um miðjan maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×