Innlent

Notuðu þyrlu, dróna og sporhund við leit að sofandi dreng

Samúel Karl Ólason skrifar
Þyrlan mun ekki hafa verið lengi á flugi yfir Vatnaskógi þegar drengurinn fannst.
Þyrlan mun ekki hafa verið lengi á flugi yfir Vatnaskógi þegar drengurinn fannst. Vísir/Vilhelm

Lögregla og björgunarsveitarfólk kom að umfangsmikilli leit að níu ára dreng í Vatnaskógi í nótt. Sá hafði horfið frá sínum stað í sumarbúðunum KFUM og KFUK í Vatnaskógi en fannst svo nokkrum klukkustundum síðar undir sæng hjá vini sínum.

Í bréfi sem sent var á foreldra barna í búðunum í dag segir að leit hafi hafist um klukkan eitt í nótt. Þegar starfsfólk var búið að leita að drengnum í tæpa klukkustund í skálum sumarbúðanna og í nærumhverfi þeirra var samband haft við foreldra drengsins og lögreglu.

Björgunarsveit var mætt á svæði með sporhund og dróna upp úr klukkan fjögur í morgun og seinna meir var einnig notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar við leitina að drengnum, sem lá þá upp í rúmi í einum skálanum. Þá var klukkan um hálf sjö.

Í áðurnefndu bréfi segir að drengurinn hafi fundist undir sæng hjá vini sínum við þriðju yfirferð í svefnskálunum. Flestir drengirnir í búðunum sváfu í gegnum öll lætin en Þráinn Haraldsson, forstöðumaður sumarbúðanna segir í samtali við Ríkisútvarpið að líklega hafi drengurinn gengið í svefni.

Þá segir Þráinn að drengurinn ætli að klára búðirnar en hann hafi verið miður sín vegna umstangsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×