Erlent

Hvetur önnur ríki til að fara að fordæmi Íslendinga

Samúel Karl Ólason skrifar
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, í Kænugarði í mars.
Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, í Kænugarði í mars. stjórnarráðið

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sendi í dag þakkir til Þórdísar Kolbrúnu R. Gylfadóttur, utanríkisráðherra Íslands. Það gerði hann vegna ákvörðunar Íslendinga að leggja niður starfsemi í sendiráðinu í Rússlandi og krefjast þess að Rússar takmarki umsvif sín hér á landi.

Starfsemi íslenska sendiráðsins í Moskvu verður lögð niður frá og með 1. ágúst næstkomandi en þar hafa verið fimm staðráðnir starfsmenn og tveir íslenskir erindrekar. Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, mun fara til Kaupmannahafnar að sögn utanríkisráðherra.

Þórdís Kolbrún segir að forsendurnar fyrir starfsemi í Moskvu séu gjörbreyttar og pólitísk tengsl Rússlands og Íslands séu nánast engin.

„Við slítum ekki stjórnmálasambandi og lokum ekki sendiráðinu en gerum þetta svona í ljósi stöðunnar eins og hún blasir við.“

Sjá einnig: Forsendur gjörbreyttar og tengslin nánast engin

Kuleba birti tíst í dag þar sem hann hvatti önnur ríki til að fara að fordæmi Íslendinga, því Rússar þyrftu að átta sig á því að grimmd þeirra leiddi til einangrunar.

Í frétt Moscow Times segir að Íslendingar séu fyrstir Evrópuþjóða til að loka sendiráði í Rússlandi, frá því Rússar hófu innrásina í Úkraínu.

Á undanförnum árum hafa ríkisstjórnir víða um heim fækkað erindrekum sínum og starfsmönnum í Rússlandi og gert Rússum að gera hið sama. Þeirra á meðal eru Svíar, Norðmenn, Bandaríkjamenn og Bretar.

 Þjóðverjar skipuðu Rússum svo nýverið að loka fjórum af fimm ræðismannsskrifstofum þeirra í Rússlandi en það var í kjölfar þess að Rússar settu takmark á fjölda starfsmanna sendiráðs og ræðismannsskrifstofa Þjóðverja í Rússlandi.


Tengdar fréttir

Forsendur gjörbreyttar og tengslin nánast engin

„Staðreyndin er bara sú að forsendur fyrir því að reka starfsemi í Moskvu eru gjörbreyttar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, sem hefur ákveðið að leggja niður starfsemi íslenska sendiráðsins í Moskvu. Starfsemi rússneska sendiráðisins hér verður takmörkuð og sendiherrann fer heim.

Loka sendi­ráðinu í Moskvu og tak­marka um­svif Rússa hér­­lendis

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að leggja niður starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu frá 1. ágúst næstkomandi. Þá hefur sendiherra Rússlands hér á landi verið tjáð að gert sé ráð fyrir að Rússland minnki fyrirsvar sitt þannig að sendiherra stýri ekki lengur sendiráði Rússlands í Reykjavík. Sömuleiðis hefur Rússlandi verið gert að lágmarka starfsemi sendiráðsins á Íslandi til samræmis við þessa ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×