Erlent

Segir árásina á Moskvu vera hryðjuverk

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, heimsótti menningarmiðstöð í Moskvu í dag þar sem hann tjáði sig um drónaárásina á höfuðborgina í morgun.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, heimsótti menningarmiðstöð í Moskvu í dag þar sem hann tjáði sig um drónaárásina á höfuðborgina í morgun. AP/Vladimir Astapkovich

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að drónaárás á Mosvku í morgun sé hryðjuverk. Árásinni hafi verið ætlað að hræða Rússa og ögra Rússum til að bregðast við með sambærilegum hætti.

Ráðamenn í Rússlandi segja átta dróna hafa verið notaða til árásarinnar. Fimm þeirra hafi verið skotnir niður með Pantsir-loftvarnarkerfi og þremur hafi verið grandað með rafrænum varnarbúnaði. Þrjár byggingar eru sagðar hafa skemmst vegna árásarinnar og tveir munu hafa slasast lítillega.

Í frétt BBC segir að hús hafi skemmst í hverfum Moskvu þar sem auðugt fólk býr gjarnan. Þar á meðal í hverfi í vesturhluta Moskvu, þar sem Pútín sjálfur og aðrir ráðamenn eiga húsnæði.

Pútín hélt því fram í dag, samkvæmt TASS fréttaveitunni, sem er í eigu rússneska ríkisins, að árásin á Moskvu hafi verið hefndaraðgerð fyrir árás Rússa á höfuðstöðvar hernaðarleyniþjónustu Úkraínu (GUR) en ekki liggur fyrir hvaða árás hann er að tala um.

Pútín sagði almenning í Úkraínu þurfa að gera sér grein fyrir því hvað ráðamenn þar í landi væru að kalla yfir þá. Pútín gaf einnig í skyn að Úkraínumenn ætluðu sér að valda skaða á kjarnorkuverinu í Saporisjía, sem Rússar hafa hernumið, og gera annarskonar skemmdarverk í tengslum við kjarnorkuiðnað.

Hér að neðan má sjá frétt Steve Rosenberg, fréttamanns BBC, sem er staddur í Moskvu um drónaárásina í morgun. Hann segir meðal annars að íbúar borgarinnar séu uggandi vegna hennar.

Gera ítrekaðar árásir á borgaraleg skotmörk

Frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst í síðasta mánuði hafa Rússar gert reglulegar dróna og eldflaugaárásir á Kænugarð og önnur byggð ból í Úkraínu. Ráðamenn í Rússlandi halda því reglulega fram að þeir geri eingöngu árásir á hernaðarleg skotmörk í Úkraínu en það er ósatt.

Sjá einnig: „Ég er búinn að drepa svo mikið af borgurum“

Í haust gerðu Rússar ítrekaðar árásir á innviði Úkraínu með því markmiði að reyna að gera úkraínsku þjóðinni erfitt um vik vegna kulda í vetur. Þessum árásum fjölgaði samhliða slæmu gengi Rússa á víglínunum í Úkraínu í fyrra.

Fjölmargir óbreyttir borgarar hafa fallið í þessum árásum. Undanfarnar vikur hafa árásir Rússa á Kænugarð verið sérstaklega tíðar og umfangsmiklar.


Tengdar fréttir

Dróna­á­rásir á Kænu­garð og Moskvu í nótt

Drónaárásir voru gerðar á Kænugarð í Úkraínu og Moskvu í Rússlandi í nótt. Einn lést og nokkrir særðust í Kænugarði, þar sem hermálayfirvöld sögðust hafa skotið niður yfir 20 dróna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×