Fótbolti

Phil Neville tók kast á blaðamannafundi: „Sýndu smá helvítis virðingu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Phil Neville og Inter Miami eru í vandræðum.
Phil Neville og Inter Miami eru í vandræðum. getty/Ira L. Black

Phil Neville, þjálfari Inter Miami, var illa fyrir kallaður á blaðamannafundi eftir 3-1 tap liðsins fyrir Degi Dan Þórhallssyni og félögum í Orlando City í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Þetta var áttunda tap Inter Miami í fyrstu þrettán leikjum tímabilsins og gengi liðsins virðist vera farið að hafa áhrif á Neville.

Kornið sem fyllti mælinn var þegar blaðamaður greip ítrekað fram í fyrir honum á blaðamannafundi eftir leikinn gegn Orlando.

„Get ég fengið að klára að tala? Eða ætlarðu að trufla mig?“ sagði Neville reiður.

„Get ég fengið að klára? Því ég trufla ekki þína spurningu svo ekki trufla mína. Sýndu smá helvítis virðingu.“

Neville baðst svo afsökunar á blótinu og viðurkenndi svo að hann hefði gleymt spurningu blaðamannsins.

David Beckham, góðvinur Nevilles, er eigandi Inter Miami sem er í 12. sæti af fimmtán liðum í Austurdeild MLS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×