Viðskipti innlent

Spá því að hag­vöxtur gæti orðið sögu­lega mikill næstu ár

Atli Ísleifsson skrifar
Erna Björg Sverrisdóttir er aðalhagfræðingur Arion banka.
Erna Björg Sverrisdóttir er aðalhagfræðingur Arion banka. Vísir/Vilhelm

Ný greiningardeild Arion banka segir að horfur séu á meiri hagvexti í ár en áður var talið og að áfram muni „blása byrlega í segl þjóðarskútunnar“.

Þetta kemur fram í nýrri hagspá hinnar nýju deildar sem Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur bankans, veitir forstöðu.

Í greiningunni kemur fram að mikil fólksfjölgun, hraðari uppsveifla ferðaþjónustunnar en gert hafi verið ráð fyrir í síðustu spá og öflug fjárfesting, sem studd sé af lágum raunvöxtum síðustu misseri, komi til með að leiða til 5,1 prósenta hagvaxtar í ár.

„Með öðrum orðum, fjölgun íbúa og ferðamanna drífur áfram hagvöxt. Á næsta ári er hins vegar útlit fyrir að verulega hægi á með 1,6% hagvexti, m.a. vegna vaxtahækkana, en að hagkerfið leiti í langtímahagvöxt árið 2025.

Stærsta vandamálið sem efnahagslífið glímir við um þessar mundir er tæp 10% verðbólga sem hefur ítrekað reynst þrálátari en áður var talið. Við gerum engu að síður ráð fyrir að verðbólgan hjaðni næstu misseri en það mun kosta frekari vaxtahækkanir,“ segir í spá bankans.

Ófyrirséðir atburðir geti sett strik í reikninginn

Ennfremur kemur fram að líkur séu á að hagvöxtur geti verið sögulega mikill næstu ár, en að ýmsir þættir geti þróast til verri vegar.

„Hagkerfið er almennt í góðu ásigkomulagi og við erum bjartsýn á framtíðarhorfur efnahagslífsins. Þar skipta metnaðarfull áform í fiskeldi, orkuskiptum, ýmsum tæknigreinum, lyfjaiðnaði og fleiri atvinnugreinum miklu máli. Spáin er þó varfærin hvað þessi áform varðar en gangi þau eftir eru líkur á að hagvöxtur geti verið sögulega mikill næstu ár.

Á hinn bóginn getur ýmislegt þróast til verri vegar. Horfur eru á hægagangi, og jafnvel niðursveiflu, í okkar viðskiptalöndum sem getur smitast hingað og vaxtahækkanir um heim allan, þ.m.t. á Íslandi, gætu bitnað meira á raunhagkerfinu en við gerum ráð fyrir. Þá er ótalin reynsla okkar af heimsfaraldri og stríðsátökum síðustu ára: Ýmsir ófyrirséðir atburðir geta hæglega sett strik í reikninginn,“ segir í hagspá greiningardeildar bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×