Erlent

Sel­ensk­í seg­ir Úkra­ín­u­menn þurf­a meir­i tíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn á T-80 skriðdreka í Dónetskhéraði.
Úkraínskir hermenn á T-80 skriðdreka í Dónetskhéraði. Getty/Vincenzo Circosta

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir ríkið þurfa meiri tíma fyrir gagnsókn gegn Rússum sem búist er við á næstu vikum. Hann segir Úkraínumenn þurfa að bíða eftir frekari hergagnasendingum sem von er á en þar á meðal eru bryndrekar og skotfæri.

Forsetinn sagði Úkraínumenn hafa burði til að gera gagnsókn og að hún gæti verið vel heppnuð. Hins vegar yrði mannfall líklega mikið og því þyrfti að bíða aðeins lengur.

Þetta kom fram í viðtali Selenskí við BBC þar sem rætt var við hann um hina væntanlegu gagnsókn.

Hvenær og hvar Úkraínumenn gera væntanlega gagnárás þeirra liggur ekki fyrir. Þeir hafa verið að mynda nýjar hersveitir í vetur en margar þeirra eru búnar vestrænum skrið- og bryndrekum og þjálfaðar af herjum Atlantshafsbandalagsins.

Christopher Cavoli, yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Evrópu, sagði í síðasta mánuði að búið væri að afhenda nánast öll þau hergögn sem Úkraínumönnum hefði verið lofað. Þar á meðal eru Leopard skriðdrekar frá Þýskalandi og öðrum Evrópuríkjum, Challenger skriðdrekar frá Bretlandi, Bradley bryndrekar frá Bandaríkjunum og Marder bryndrekar frá Þýskalandi, svo eitthvað sé nefnt.

Jens Stoltenberg sló þá á svipaða strengi og sagði Úkraínumenn hafa myndað og þjálfað níu stórfylki til sóknarinnar, sem flestir sérfræðingar telja að muni beinast að ströndum Asóvhafs.

Selenskí sagðist vongóður um að Úkraínumenn myndu ná árangri og sagði að langvarandi átök eða „frosið stríð“ væri ekki í myndinni fyrir Úkraínumenn. Það væri eitthvað sem Rússar vildu ná, svo þeir hefðu tíma til að byggja sveitir sínar upp á nýjan leik.

Meðal þess sem Úkraínumenn hafa lengi beðið um og ekki fengið eru stýriflaugar sem þeir geta meðal annars notað til árása á birgðastöðvar Rússa langt frá víglínunum. Bretar hafa tekið fyrsta skrefið í því að afhenda Úkraínumönnum slík vopn, samkvæmt frétt CNN, og hafa stýriflaugar sem kallast Storm Shadow verið sendar til Úkraínu á laun.

 

Mikið í húfi

Mikið er í húfi fyrir Úkraínumenn varðandi þessa væntanlegu gagnsókn en slæmt gengi gætti haft í för með sér minni hernaðaraðstoð og þrýsting um viðræður við Rússa.

Selenskí sagði í samtali við BBC að ekki væri hægt að þvinga Úkraínumenn til að gefa Rússum eftir landsvæði.

„Af hverju ætti eitthvað ríki að gefa Pútín [forseta Rússlands] landsvæði?“ spurði Selenskí.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu.AP/Yves Herman

Þá er búið að ganga verulega á vopnabúr Vesturlanda á undanförnum mánuðum og þó verið sé að auka hergagnaframleiðslu og fjárfestingu víða er óljóst hvort Úkraínumenn geti átt von á sambærilegum vopnasendingum á næstu mánuðum eða jafnvel árum og þeir hafa verið að fá.

Bakhjarlar Úkraínu segjast þó staðráðnir í að standa við bakið á Úkraínumönnum til lengdar, reynist þörf á því.

Josep Borrell, forsvarsmaður utanríkismála hjá Evrópusambandinu, sagði í gær að til stæði að ESB myndi framleiða milljón sprengikúlur og eldflaugar á þessu ári. Hægt yrði að framleiða hergögn fyrir bæði Úkraínu og aðra heri Evrópu.

Selenskí sagðist ekki hafa áhyggjur af því að missa stuðning Bandaríkjanna ef Joe Biden, forseti, tapar í forsetakosningunum í nóvember á næsta ári. Forsvarsmenn beggja flokka vestanhafs styðji aðstoð við Úkraínu og þar að auki sagðist Selenskí hafa trú á því að stríðið yrði búið þá og að Úkraínumenn yrðu búnir að vinna.

Draga úr væntingum

Ráðamenn í Úkraínu og í Vesturlöndum hafa reynt að draga úr væntingum fyrir gagnsóknina. Úkraínumenn segjast átta sig á því að þeir þurfi að ná árangri en vara við því að gagnsóknin muni líklega ekki binda skyndilega enda á stríðið.

Gagnsóknin mun ekki vera auðveld en Rússar hafa samhliða óheppnuðum sóknaraðgerðum í vetur byggt upp umfangsmiklar varnir í suður- og austurhluta Úkraínu með skotgröfum, jarðsprengjusvæðum og skriðdrekatálmum.

Rússar eru með betri varnir en þeir voru með í ­Karkív og í Kherson í fyrra, og fleiri hermenn á víglínunum, þó margir þeirra séu kvaðmenn án mikillar þjálfunar og reynslu. Rússneski herinn varði þó vetrinum ekki í uppbyggingu heldur reyndu hermenn að sækja fram á sex mismunandi víglínum í austurhluta Úkraínu.

Hvergi náðu Rússar markverðum árangri og vörðu þeir miklum mannafla og skotfærum til árása, sem gæti komið niður á þeim á næstu vikum.

Þessi níu nýju stórfylki sem Úkraínumenn eru sagðir hafa myndað eru þó að mestu skipuð nýjum og óreyndum sjálfboðaliðum og kvaðmönnum og þeir hafa einnig fengið umfangsmikla þjálfun. Varnir Rússa eru þar að auki hannaðar til að koma í veg fyrir að Úkraínumenn geti brotið sér leið í gegnum þeir áður en Rússar geta sent liðsauka á þá staði sem Úkraínumenn reyna að sækja fram.

Úkraínumenn skjóta eldflaugum í Dónetskhéraði.Getty/Muhammed Enes Yildirim

Stökktu hermönnum á flótta nærri Bakhmut

Úkraínumönnum tókst í vikunni að gera smáar gagnárásir gegn Rússum nærri Bakhmut, þar sem Rússar eru nærri því að taka stjórn á öllum bænum, eða því sem eftir er af honum.

Yevgeny Prigozhin, forsvarsmaður Wagner málaliðahópsins, hefur verið mjög gagnrýninn á rússneska herinn og forsvarsmenn hans undanfarna daga. Hann hefur sent frá sér fjölmargar yfirlýsingar um að forsvarsmenn hersins hafi ekki staðið við gefin loforð um skotfærasendingar og það hafi gert málaliðunum erfitt um vik.

Hér að neðan má sjá myndband þar sem búið er að skeyta saman myndbandi frá Úkraínumönnum og ávarpi Prigozhin, þar sem hann gagnrýndi Rússneska hermenn fyrir að hafa flúið undan úkraínskum hermönnum nærri Bakhmut og flóttann hafa kostað Wagner um fimm hundruð menn.

Vert er að vara lesendur við því að myndbandið getur vakið óhug.

Rússneski miðillinn Meduza segir að Prigozhin hafi meðal annars kallað Pútín „glaðan afa“ og sagt að hann gæti reynst vera „drullusokkur“ . Miðillinn segir að ummælin hafi ekki fallið í kramið í Kreml en Ramzan Kadyrov, leiðtogi Téténíu, hefur gagnrýnt Prigozhin og beðið um að hersveitir sínar verði sendar til Bakhmut.

Ráðamenn í Kreml eru sagðir líta á ummæli Prigozhin sem ógn og segir einn heimildarmaður Meduza að haldi Prigozhin gagnrýni sinni áfram og haldi áfram að tala um mistök á víglínunum verði gripið til aðgerða og hann mögulega skilgreindur sem svikari.


Tengdar fréttir

Segir Rússa berjast fyrir fullveldi Rússlands

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hélt því fram í ræðu í Moskvu í morgun, þar sem Rússar minntust sigurs í seinni heimsstyrjöldinni, að innrás Rússa í Úkraínu væri í rauninni barátta um tilvist Rússlands og rússnesk gildi.

Hótar að draga Wagner-liða frá Bak­hmút

Leiðtogi Wagner-málaliðahópsins rússneska hótar því að draga hermenn sína frá borginni Bakhmút í austanverðri Úkraínu fyrir miðja næstu viku útvegi rússnesk stjórnvöld þeim ekki skotfæri. Hann skýtur föstum skotum á rússneska ráðamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×