Innlent

Leik­skóla­starfs­maður dæmdur fyrir að taka börn hálstaki og klóra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Börn í leikskólanum voru hætt að vilja mæta.
Börn í leikskólanum voru hætt að vilja mæta.

Kona sem starfaði á Sólborg, leikskóla Hjallastefnunnar í Sandgerði, hefur verið dæmd fyrir að hafa beitt börn á aldrinum átján mánaða til þriggja ára ofbeldi. Var hún meðal annars ákærð fyrir að beita börn andlegum og líkamlegum refsingum.

RÚV greinir frá.

„Við fyllumst auðvitað bara óþægindatilfinningu. Það er auðvitað bara skelfilegt að horfast í augu við að þetta hafi gerst, en í þessu tilfelli var brugðist við eins og við teljum að hafi verið rétt,“ segir Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar í samtali við RÚV.

Samkvæmt frétt miðilsins var konan ákærð fyrir brot gegn sjö börnum. Er hún meðal annars sögð hafa móðgað þau og sært, tekið um háls þeirra og úlnliði, klórað þau og klipið, og talað þannig til þeirra að þau óttuðust hana.

Konan starfaði á leikskólanum frá 2020 til 2021.

„Þessi grátur sem ég heyrði var skelfilegur. [...] Hann segir með ekkasogum: „Hún meiddi mig, hún meiddi mig“ og bendir á hálsinn sinn. Og þá sjáum við augljós rauð handaför,“ segir í lýsingu samstarfsmanns konunnar á atvikinu sem varð til þess að konan var tilkynnt til lögreglu.

Að sögn foreldra og starfsmanna voru börn í leikskólanum farin að neita að vilja mæta í skólann og þá er hegðun þeirra sögð hafa breyst. Einn starfsmanna sagði börnin gráta „skelfingargráti“.

Konan var dæmd í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að taka eitt barn hálstaki og klóra annað barn í andlitið. Hún neitaði sök fyrir dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×