Handbolti

Sjáðu kol­ó­lög­legu víta­vörsluna og há­spennuna í Eyjum og á Hlíðar­enda

Sindri Sverrisson skrifar
Mariam Eradze reyndist hetja Vals gegn Stjörnunni í gær.
Mariam Eradze reyndist hetja Vals gegn Stjörnunni í gær. VÍSIR/VILHELM

Spennan og dramatíkin var allsráðandi í úrslitakeppni Olís-deildar kvenna í handbolta í gærkvöld þar sem úrslitin réðust í blálokin. Kolólögleg vítavarsla skipti sköpum í Eyjum.

ÍBV og Valur komust bæði í gær í 2-1 í undanúrslitaeinvígum sínum við Hauka og Stjörnuna. Báðir leikirnir unnust með einu marki.

Í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport var farið yfir lokakaflana í leikjunum. Þar mátti meðal annars sjá þegar Haukar gátu komist í 20-19 gegn ÍBV, þegar hálf mínúta var eftir, en Marta Wawrzynkowska varði þá með kolólöglegum hætti vítakast Elínar Klöru Þorkelsdóttur með því að fara of framarlega áður en vítið var tekið.

Deildarmeistarar ÍBV nýttu sér þetta og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði sigurmarkið nánast á síðustu sekúndu, eftir að hafa leikið í gegnum vörn Hauka, en lokakaflann má sjá hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Lokakafli ÍBV og Hauka

„Þarna vantar einhvern til að koma og negla hana [Hönnu] bara,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram og sérfræðingur Seinni bylgjunnar, sem vildi helst fá leikinn í framlengingu enda hafi lokamínútur leiksins verið stórkostlegar.

Spennan var ekki síðri á Hlíðarenda þar sem Helena Rut Örvarsdóttir náði að jafna metin í 24-24 þegar 18 sekúndur voru eftir. Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, tók þá leikhlé og stillti upp í lokasóknina. Þar bjuggust sjálfsagt flestir við skoti frá Theu Imani Sturludóttur en hún gaf til hliðar á Mariam Eradze sem skoraði sigurmarkið með frábæru gólfskoti. Lokakaflann má sjá hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Lokakafli Vals og Stjörnunnar

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 krónur á mánuði.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×