Innlent

Lög­regla verst alla frétta af manns­láti á Sel­­fossi: Mis­vísandi sögu­­sagnir í um­ferð

Margrét Björk Jónsdóttir og Árni Sæberg skrifa
Lögreglan á Selfossi gefur lítið upp um málið.
Lögreglan á Selfossi gefur lítið upp um málið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurlandi verst allra frétta af mannsláti á Selfossi síðdegis í gær. Ung kona sá sig knúna til að setja færslu á samfélagsmiðla og upplýsa um að hún væri ekki sú látna, þar sem sögur þess efnis gengu um bæjarfélagið. 

Heimildir fréttastofu herma að mennirnir sem handteknir voru í tengslum við málið séu hálfbræður. Það hefur þó ekki fengist staðfest. Þá hafa gengið sögur um að andlátið hafi verið vegna ofskömmtunar fíkniefna en konan sem lést í gær var um þrítugt.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttstofu til að fá upplýsingar um rannsókn málsins eða tildrög andlátsins hafa ekki fengist nein svör frá lögreglunni á Suðurlandi. 

Síðdegis fékkst það þó staðfest að búið væri að leiða mennina fyrir dómara og krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim í eina viku. Dómari í málinu hefur ákveðið að nýta sér lögbundinn sólarhringsfrest til þess að kveða upp úrskurð um gæsluvarðhald.

„Ég vil að það sé á hreinu að ég er ekki þessi manneskja“

„Nú langar mig að koma fram og láta vita að ég er á lífi. Hef ekki gert annað en að svara símtölum og skilaboðum í allan morgun. Það eru sögusagnir um mig varðandi atburðinn sem átti sér stað hér á Selfossi í gærkvöldi. Ég vil að það sé á hreinu að ég er ekki þessi manneskja og veit ekkert um þetta hræðilega mál.“

Svona hljómar færsla sem ung kona setti inn á Facebook í dag. Því er ljóst að á meðan lögregla gefur ekkert upp geta ýmsar sögur farið á kreik. 

Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.


Tengdar fréttir

Konan sem lést á Sel­fossi var á þrí­tugs­aldri

Konan sem lést á Selfossi í gær við grunsamlegar kringumstæður var á þrítugsaldri. Hún lést í heimahúsi. Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir á vettvangi og var haldið af lögreglu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×