Erlent

Or­ban furðar sig á mögu­legri inn­göngu Úkraínu í NATO

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Viktor Orban er forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban er forsætisráðherra Ungverjalands. Getty/Tacca

Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands furðar sig á mögulegri inngöngu Úkraínumanna í Atlantshafsbandalagið. Orban deildi frétt um málið á Twitter-síðu sinni og sagði einfaldlega: „Ha?!“

Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO lýsti því yfir í dag að öll ríki NATO muni samþykkja inngöngu Úkraínumanna þegar tekist hefur að bægja Rússum frá. Skilaboðin, eða samþykkið öllu heldur, virðist hins vegar hafa farið fram hjá ungverska forsætisráðherranum.

Árás á eitt NATO-ríki þýðir árás á þau öll og væri staðan því önnur í dag ef búið hefði verið að samþykkja umsókn Úkraínumanna fyrir innrásina. Ríki Atlantshafsbandalagsins, þar á meðal Ungverjaland, samþykktu inngöngu Úkraínu árið 2008 en þó með þeim fyrirvara að inngangan tæki ekki gildi þá þegar. Viðræðurnar voru tímabundið settar á ís árið 2010 eftir kosningu Viktors Yanukovych í embætti forseta Úkraínu.

Öll ríki bandalagsins verða að samþykkja inngöngu annars, en Ungverjar hafa meðal annars skipað sér í lið með Tyrkjum, sem eru alls ekki spenntir fyrir inngöngu Svíþjóðar í bandalagið. 

Ungverjar hafa fordæmt innrásina en hafa þó ekki sent Úkraínumönnum vopn eða hergögn. Samskipti yfirvalda í Úkraínu og Ungverjalandi hafa löngum verið stirð, að sögn Breska ríkisútvarpsins. 


Tengdar fréttir

Vilja aftur funda með Svíum um NATO-aðild

Tyrknesk stjórnvöld hafa tilkynnt að til standi að halda fleiri fundi með fulltrúum sænskra og finnskra stjórnvalda um NATO-aðild þeirra. Mevlüt Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, greindi frá þessu í morgun.

Ung­verja­land geti ekki talist lýð­ræðis­ríki

Evrópuþingið segir að Ungverjaland geti ekki talist fullkomið lýðræðisríki. Stjórnarhættir falli ekki að grundvallarhugmyndum um lýðræði og réttarríki. Þingfulltrúar greiddu atkvæði gegn ríkisstjórn Viktors Orban forsætisráðherra landsins fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×