Innlent

Fjölbreytt dagskrá skátanna á sumardaginn fyrsta

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi.
Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi. Rita Osório

Sumardagurinn fyrsti er haldinn hátíðlegur um allt land í dag - og það eru líklega fáir sem fagna honum ákafar en skátarnir. Skátahöfðingi Íslands segir daginn eiga sérstakan sess í hjörtum íslenskra skáta.

Landsmenn ættu ekki að vera í vandræðum með að finna sér eitthvað til skemmtunar í dag. Mörg sveitarfélög landsins standa fyrir metnaðarfullri dagskrá í tilefni dagsins og oft kemur Skátahreyfingin að dagskránni með einum eða öðrum hætti.

Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi segir skátana enda hafa staðið vörð um daginn í tugi ára - og fer yfir helstu dagskrárliði, sem nálgast má í heild hér.

„Það er til dæmis stórhátíð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Það stendur mikið til við Varmá í Mosfellsdal og svo er líka í Grafarvogi, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Reykjanesbæ, Hveragerði, Selfossi, Akureyri. Dalabyggð, þetta er bara úti um allt land,“ segir Harpa.

Af hverju hafa skátarnir tekið þennan dag upp á sína arma? 

Þetta er í rauninni dagur barnanna eins og konudagurinn og þessir dagar sem við eigum í okkar þjóðtrú þá hefur sumardagurinn fyrsti verið barnahátíðardagur og við viljum hvetja foreldra og fjölskyldu til að nýta daginn í samveru og við reynum að búa til einhvern vettvang fyrir það,“ segir Harpa.

Gott veður á víða að vera til hátíðahalda í dag; sumarið heilsar með mildri suðlægri átt. Hiti 7-15 stig, hægur vindur víðast hvar og jafnvel bjartviðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×