Fótbolti

Sonur nýs lands­liðs­­þjálfara þakkar fyrir miðana og er spenntur að koma hingað til lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bendik Hareide og Åge Hareide.
Bendik Hareide og Åge Hareide. Twitter@BHareide

Bendik Hareida, sonur nýráðins þjálfara karlalandsliðs Íslands í fótbolta, þakkar KSÍ fyrir miða á landsleiki sumarsins í færslu á samfélagsmiðlum.

Hinn 69 ára gamli Åge Hareide er nýr landsliðsþjálfari Íslands. Hann er mættur hingað til lands og hélt blaðamannafund í gær. Åge kom vel fyrir og segist spenntur að hefja störf. Sonur hans, Benedikt, er einnig spenntur ef marka má færslu hans á Twitter.

Benedikt vakti athygli Íslendinga í aðdraganda þess að faðir hans var ráðinn sem landsliðsþjálfari. Þar sagði hann einfaldlega að „Pabbi tekur við stjórn Íslenska landsliðsins.“

Nú í morgunsárið birti hann aðra færslu. Þar þakkar hann Ómari Smárasyni - sem fer með yfirstjórn samskiptamála hjá KSÍ - og sambandinu sjálfu fyrir miða á leiki Íslands í sumar.

„Að sjálfsögðu mæti ég í júní! Getum ekki beðið #ÁframÍsland,“ segir í tísti hans.

Eftir að hefja undankeppni Evrópumótsins 2024 á tveimur útileikjum þá leikur Ísland tvo heimaleiki í júní. Sá fyrri er gegn Slóvakíu á Þjóðhátíðardaginn sjálfan, 17. júní. Sá síðari er gegn Portúgal þremur dögum síðar, þann 20. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×