Fótbolti

Segir KSÍ ekki hafa rætt við aðra þjálfara áður en Arnar var látinn fara

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ. Vísir/Hulda Margrét

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, segir ekkert til í því að KSÍ hafi rætt við aðra þjálfara í aðdraganda þess að Arnar Þór Viðarsson var látinn fara sem þjálfari karlalandsliðsins.

Frá þessu er greint á íþróttavef Morgunblaðsins. Þar segir Vanda að það hafi alls ekki verið þannig að KSÍ hafi verið búið að ræða við aðra þjálfara áður en Arnari Þór var sagt upp störfum.

„Ég var ekki búin að tala við nokkurn mann, áður en Arnar hætti. Ég vil að það komi skýrt fram að við vorum ekki búin að ræða við neinn á meðan Arnar var með liðið,“ sagði Vanda við mbl.is.

Þó er rétt að taka fram að í fyrra viðurkenndi Vanda að hafa rætt við Heimi Hallgrímsson, sem þá var án þjálfarastarfs, en hún vildi þá ekki fara nánar út í það hvað farið hefði þeim á milli.

Arnar Þór var látinn fara í lok síðasta mánaðar eftir að í ljós kom að stjórn sambandsins taldi hann ekki vera rétta manninn til að leiða liðið áfram. Hann hafði tekið við A-landsliði karla í desember árið 2020.

Á dögunum var svo staðfest að hinn 69 ára gamli Norðmaður Åge Hareide væri tekinn við liðinu. Sá býr yfir mikilli reynslu, bæði með lands- og félagsliði. Er það trú KSÍ að með hann við stjórnvölin eigi Ísland góða möguleika á að komast á EM 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×