Innlent

Gert er ráð fyrir að hægi á einkaneyslu á þessu ári

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Sterk staða vinnumarkaðar styður við einkaneyslu en mikil verðbólga og hátt vaxtastig draga hins vegar úr kaupmætti.
Sterk staða vinnumarkaðar styður við einkaneyslu en mikil verðbólga og hátt vaxtastig draga hins vegar úr kaupmætti. Vísir/Vilhelm

Atvinnuleysi á síðasta ári var að meðaltali 3,8 prósent. Á sama tíma var mikil mannfjöldaaukning en fólki á vinnufærum aldri fjölgaði um 2,7 prósent. Atvinnuþátttaka jókst einnig og var 80,1 prósent samanborið við 78,8 prósent árið 2021. Gert er ráð fyrir að staða á vinnumarkaði verði áfram sterk í ár og atvinnuleysi að meðaltali 3,8 prósent líkt og í fyrra.

Þetta kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofu Íslands en spáin tekur til áranna 2023 til 2028.

Horfur eru á að mannfjöldaaukning verði áfram mikil og að fólki á vinnufærum aldri fjölgi svipað og á síðasta ári sem verði helsti drifkraftur aukningar í heildarvinnustundum í ár. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi aukist árið 2024 samhliða minni hagvexti og verði 4 prósent.

Mikill kraftur í einkaneyslu

Hagvöxtur reyndist vera 6,4 prósent á síðasta ári og var meðal annars drifinn áfram af aukningu einkaneyslu og bata í útflutningi. Í ár eru horfur á að hagvöxtur verði 3,8 prósent. Reiknað er með hægari vexti innlendrar eftirspurnar en að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar verði jákvætt.

Mikill kraftur hefur verið í einkaneyslu síðustu tvö ár sem jókst um 7 prósent árið 2021 og 8,6 prósent árið 2022. Gert er ráð fyrir að hægi á einkaneyslu í ár og hún vaxi um 1,9 prósent.

Sterk staða vinnumarkaðar styður við einkaneyslu en mikil verðbólga og hátt vaxtastig draga hins vegar úr kaupmætti. Horfur eru á vaxandi einkaneyslu á spátímanum samhliða minnkandi verðbólgu.

Þá hafa verðbólguhorfur hafa versnað. Mikil alþjóðleg verðbólga, gengisveiking undir lok ársins og spenna á vinnumarkaði hafa ýtt undir verðbólguþrýsting innanlands.

Í ár eru horfur á að vísitala neysluverðs hækki um 8,2 prósent að meðaltali á milli ára. Á næsta ári er reiknað með að dragi úr verðbólgu og hún verði 4,6 prósent, m.a. vegna hjöðnunar verðbólgu erlendis og minni spennu í hagkerfinu.

Jafnframt kemur fram að heildarskuldir heimila eru lágar samanborið við ráðstöfunartekjur, eignir og verga landsframleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×