Viðskipti innlent

Lyfja­val nú al­farið í eigu Orkunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals, og Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar IS.
Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Lyfjavals, og Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar IS. Aðsend

Orkan IS hefur keypt 42 prósenta hlut minnihlutaeigenda í Lyfjavali. Fyrir átti Orkan 58 prósenta hlut í Lyfjavali og með þessum kaupum eignast því Orkan Lyfjaval að fullu.

Í tilkynningu kemur fram að Lyfjaval reki sjö apótek - sex á höfuðborgarsvæðinu og eitt í Reykjanesbæ, þar af fjögur bílalúguapótek. 

Haft er eftir Auði Daníelsdóttur, forstjóra Orkunnar, að það séu afar spennandi tímar framundan hjá Lyfjavali og mörg skemmtileg tækifæri til að bjóða viðskiptavinum upp á fleiri staðsetningar. 

„Lyfjaval hefur skapað sér sérstöðu á markaði með bílalúgum og löngum opnunartíma sem hefur verið afar snjöll leið til að einfalda viðskiptavinum lífið á ferðinni,” segir Auður.

Þá er haft eftir Svani Valgeirssyni, framkvæmdastjóra Lyfjavals, að þetta séu mjög góð tíðindi fyrir Lyfjaval. „Við erum mjög spennt fyrir áframhaldandi vexti í samstarfi við Orkuna,” segir Svanur. „Lyfjaval hefur verið brautryðjandi í lyfsölu á Íslandi frá því að það opnaði fyrsta frjálsa apótekið, Apótek Suðurnesja árið 1996, fyrsta bílaapótekið 2005, hóf netsölu með lyf 2022 og býður nú sólarhringsopnun í lyfsölu, það eina á landinu.“

Orkan IS ehf. var stofnað 1. desember 2021 og rekur þjónustustöðvar Orkunnar, 10-11, Extra, Löðurs bílaþvottastöðva, Íslenska vetnisfélagsins, Gló og nú Lyfjavals.


Tengdar fréttir

Munu hafa apó­tekið opið allan sólar­hringinn

Forsvarsmenn Lyfjavals hafa ákveðið að hafa bílaapótek fyrirtækisins í Hæðasmára í Kópavogi framvegis opið allan sólarhringinn. Þetta verður eina apótek landsins sem verður opið allan sólarhringinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×